140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Ég ætla að spyrja í fyrsta lagi: Telur hann hægt að ræða um skatta og afkomu greinar þegar ekki er búið að fjalla um kerfið sjálft, sem enn þá er til umræðu í nefndinni? Er hægt að ræða um skatta á tekjur sem liggja inni í öðru frumvarpi, t.d. þar sem arðsemin gæti minnkað verulega?

Þá vildi ég spyrja um sveiflukenndan rekstur eins og uppsjávarfiskveiðar. Þar getur verið gífurlegur hagnaður stundum, eins og hefur komið fram í gögnum, en líka mikið tap. Hvað gerist ef búið er að skattleggja burtu hagnaðinn þegar tapið verður og ekkert er til í rekstrinum?

Svo vil ég spyrja hann um afstöðu gagnvart landsbyggðinni. Fulltrúi þjóðarinnar í þessu dæmi er ráðherra, ríkisvaldið, og þangað streyma peningarnir frá landsbyggðinni.