140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:52]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef talað fyrir hóflegu veiðigjaldi og að það sé til dæmis í samræmi við þær sveiflur sem eru í greininni og það er verið að taka tillit til þeirra. Ég hef talað fyrir því að veiðileyfagjöldin taki tillit til mismunandi aðstæðna, hvernig menn hafa komið inn í greinina; hvort þeir eru nýkomnir inn í greinina eða löngu komnir inn í greinina til dæmis. 24 milljarða kr. veiðigjald upphaflega var að mínu viti úr hófi fram. Ég hef verið nær því að tala um 15 milljarða og tel að það eigi að vera sú vísitala sem framtíðin byggist á. Síðan náttúrlega hækkar það sem kemur inn í ríkissjóð eftir því sem greininni vex ásmegin. Við sjáum það á öllum spám að aflaaukning á að verða umtalsverð á næsta ári og miðað við veiðireglurnar ættum við að vera ágætlega stödd á næsta ári og ég tala nú ekki um þarnæsta fiskveiðiári.

Við þurfum að komast að niðurstöðu um hvað sé hóflegt veiðileyfagjald. Ég minni á að sjálfstæðismenn hafa sjálfir nefnt 10–12 milljarða. Við erum að tala um 15 milljarða. (Gripið fram í.) Hvort við eigum að stoppa við það er hins vegar samkomulagsatriði sem ég vona að menn komist að samkomulagi um.