140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (frh.):

Ég var þar kominn í máli mínu að ég fór að ræða um verðlagningu á brauði sem ég hafði reyndar lofað að gera dálítið áður. Ég man þá tíð að verð á brauði var ákveðið af verðlagsnefnd. Það var svokallað vísitölubrauð; franskbrauð, rúgbrauð og normalbrauð, þrjár tegundir. Svo voru einhverjir menn að baka eitthvað annað, en það gátu þeir selt frjálsu verði. Þá töldu menn að einhver nefnd gæti ákveðið verð á brauði. Frá þessari hugmyndafræði eru menn löngu horfnir víðast hvar í heiminum, meira að segja í Sovétríkjunum fyrrverandi, núna Rússlandi og í Kína þar sem eru kommúnistaríki. Þar eru menn fallnir frá því að miklu leyti að ákveða verð eða umgjörð atvinnurekstrar ofan frá. Þeir láta það fyrirbæri sem heitir markaður, herra forseti, um verðlagninguna. Það er markaðurinn sem ákveður verð á brauði, olíu, bensíni o.s.frv. Það hefur gefist nokkuð vel að treysta þessum herra markaði. Hann sér nokkuð vel um þetta og bregst fljótt við ef er skortur o.s.frv., sem hin opinbera verðlagning gerir ekki.

Af hverju er ég að tala um þetta, herra forseti? Vegna þess að það frumvarp sem við ræðum hér og sérstaklega frumvarpið sem við ræðum ekki, um umgjörð atvinnugreinarinnar, gengur allt út á það að við í ræðustól Alþingis ræðum prósentur, ávöxtunarkröfu á einhverja atvinnugrein, ræðum um verð á olíu og laun starfsmanna og annað slíkt sem er bara ekkert okkar hlutverk. Við eigum að setja ramma utan um þjóðlífið, en ekki að ákvarða nákvæmlega hvað normalbrauðið á að kosta, þetta skuli vera gjaldið á auðlegðina o.s.frv.

Það sem vantar inn í þessa atvinnugrein er samkeppni. Hana hefur alltaf vantað. Okkar vestrænu þjóðfélög ganga einmitt út á samkeppni og markaðsverð á vörum. Samkeppninni er ætlað að ná niður markaðsverðinu þannig að neytendur njóti þess. Það er trú margra, þar á meðal mín, að það sé besta leiðin til þess að neytandinn fái eins gott og lágt verð og kostur er og eins góða vöru og mögulegt er. Þetta er sýn mjög margra. En það virðist vera að hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn gangi allt út á það að ákveða alla hluti fyrir borgarana ofan frá og ákveða umhverfi atvinnugreina.

Ég lít þannig á að til sé eitthvert fyrirbæri sem heitir aflahlutdeild, þ.e. hlutdeild í afla Íslands á einhverju ákveðnu ári. Segjum árið 2017, þá er til einhver hlutdeild sem er samanlagt 100%. Nú veit enginn hvað veiðist árið 2017, ekki nokkur maður, menn vita ekkert hvernig stofnarnir verða þá eða hvernig markaðurinn hegðar sér. Samt hygg ég að það væri hægt að selja á markaði markaðshlutdeild í þessari veiði, t.d. 1%. Hana væri hægt að selja og markaðurinn mundi mjög fljótlega finna hvað er rétt verð fyrir 1% aflahlutdeild ársins 2017. Þetta vantar inn í kerfið í dag.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson ræddi um vandamálið með gulllax og grálúðu, ég man nú ekki alveg hvaða tegundir hann nefndi, það væri orðið svo dýrt að sækja þessar tegundir út á miðin að þær útgerðir sem veiddu þær mundu leggjast af. Það er einmitt vandinn, herra forseti, að þegar er orðið dýrt að sækja einhverjar tegundir lækkar verðið á þeim, þ.e. á heimildina til að veiða þær. Í stað þess að útgerðirnar leggist af borga menn bara minna af því að tilkostnaðurinn er orðinn svo mikill við að ná í þessa tegund og það er ekki eins mikill akkur í því að veiða þessar tegundir eins og t.d. þorskinn. Þannig að markaðurinn ætti að sjá um þetta. Ég mundi vilja að menn settu aflahlutdeildir á Íslandsmiðum á markað.

Ég er flutningsmaður að frumvarpi, reyndar einn, þar sem þetta er gert og öllum aflahlutdeildum er dreift á þjóðina, einum fertugasta á hverju ári til 40 ára. Þá mega Jón og Gunna veiða 23 þorskígildiskíló í 40 ár. Svo reyna þau að selja þessa aflahlutdeild sína eins og allir aðrir og það myndast markaður. Þarna gæfist ágætis ávöxtunartækifæri fyrir til dæmis lífeyrissjóði, fyrir einstaklinga, fyrir sveitarfélög og aðra. Þetta gengur út á markað sem er gjörsamlega öndvert við þá tillögu sem við ræðum hér sem gengur út á sovétkerfi og -skipulag. Verð og meira að segja ávöxtunarkrafa á atvinnugreinar á að ákveða í ráðuneytum, meira að segja í ræðustól Alþingis, því hæstv. sjávarútvegsráðherra bað mig um að nefna rétta ávöxtunarkröfu um daginn þegar við ræddum þetta í 1. umr. Ég sagði þá að það væri sennilega rétt að hafa hana 11% ef ég ætti yfirleitt að vera í því hlutverki. En auðvitað vil ég ekki vera í því hlutverki. Það er fáránlegt að þingmenn þjóðarinnar sem eiga að setja ramma utan um þjóðfélagið séu að ákveða ávöxtunakröfu á sjávarútveg. Þetta á að sjálfsögðu að ákvarðast af markaðnum eins og allt annað.

Þegar menn eru búnir að setja aflahlutdeildirnar á markað þarf að breyta þeim í aflamark á hverju ári. Tímanlega fyrir 1. september þarf að segja hver þessi aflahlutdeild eigi að vera, það megi veiða svo og svo mikið af þorski, löngu, karfa eða grálúðu o.s.frv. Þá breytist þessi aflahlutdeild yfir í aflamark og það fer líka á markað. Ef verð á þorski í heiminum verður lágt af einhverjum ástæðum, það hefur kannski fundist bein í flaki og farið hátt í fjölmiðlum og á netinu, þá lækkar verðið á því aflamarki og getur hækkað á einhverri annarri. Þetta er sá markaður sem ég trúi á og þarf að vera til staðar, bæði varðandi aflahlutdeildina og aflamarkið.

Ef þetta væri þannig værum við með algjöra markaðsvæðingu. Að sjálfsögðu þarf að fylgja því algjört frjálst framsal. Aflahlutdeildin er bara eitthvað sem einhver á og á rétt til að veiða 1% af öllum afla árið 2017 eða 2019 eða 2035 eða hvaða ár það nú er. Hann hefur þessi réttindi, hann þarf ekkert að eiga skip, en ég mundi kannski gera kröfu til þess að hann væri Íslendingur. Það er kannski eina krafan.

Síðan breytist þetta yfir í aflamark á viðkomandi ári, og fer aftur á markað, þannig mun útgerðin gefa af sér langmestan arð. Hver græðir á því? Þjóðin, alveg sérstaklega því samkvæmt mínum hugmyndum á að dreifa arðinum á þjóðina, íbúana.

Það frumvarp sem við ræðum hér og allur sá vandræðagangur sem menn eru með í tengslum við það er af tvennum toga. Annars vegar á að segja að ríkið sé samasem þjóð. Steingrímur J. Sigfússon hæstv. ráðherra sé sama og Jón og Gunna. Í mínum huga er hann ekkert Jón og Gunna. Það er langt í frá. Þau borga skatta en hann sem fjármálaráðherra tekur við þeim sköttum. Þá brýtur á vinskapnum eða samasemmerkinu.

Svo eru menn með einhvers konar landsbyggðarstefnu í þessu. Menn ætla sér að halda byggð á ákveðnum stað með því að setja þangað kvóta. Af hverju skyldi kvótinn hafa farið frá þessum stað? Vegna þess að það var ekki lengur arðbært að veiða fisk á þeim stað. Ég nefni Siglufjörð og síldina sem hvarf. Þá hefði verið fáránlegt að setja til dæmis kvóta í þorski yfir á Siglufjörð. Það var reyndar ekki gert því að þá var ekki búið að finna upp þessa landsbyggðarstefnu. Reyndar voru síldarverksmiðjurnar starfræktar á Siglufirði í áratugi eftir að síldin hvarf. Það má segja að það hafi verið ákveðinn landsbyggðarstyrkur. Hann fólst þó að minnsta kosti ekki í því að þvinga menn til að veiða þorsk eða eitthvað annað sem borgaði sig ekki að veiða á þeim stað. Svo hefur sú staða reyndar breyst.

Mér finnst að markaðurinn og frjálst val manna eigi að ráða því hvað þeir vilja veiða á ákveðnum stað. Ef þróunin er sú að veiðar hverfa á einhverjum stað, annaðhvort vegna þess að samgöngur eru ekki nógu góðar við staðinn eða eitthvað slíkt, eiga menn að hlíta því. Það má styrkja byggðir með öðru, t.d. með því að styðja við ferðaþjónustu eða nýjungar á því sviði, einhverja nýsköpun, eitthvað slíkt. Menn geta stuðlað að atvinnusköpun á ákveðnum stöðum án þess að þvinga menn til að veiða fisk sem kannski borgar sig ekki að veiða á þeim stað.

Mér finnst þetta frumvarp sem við ræðum hér mjög mengað af þeirri hugsun að það þurfi að sjá til þess að þessi pottur fari þarna og þessi fari hingað. Frumvarpið sem við erum ekki að ræða er sérstaklega þessu marki brennt. Fyrir utan það er þetta frumvarp mjög mengað af vinstri sovétmennsku. Þetta er ekki einu sinni jafnaðarmennska, heldur sovétmennska, það á að ákveða allt saman ofan frá af skrifborðum í ráðuneytum, hinum grænu skrifborðum.

Nokkuð hefur verið rætt um laun og álögur á greinina. Ég veit ekki hvað menn halda. Hæstv. sjávarútvegsráðherra kemur af ágætum fundi í dag hjá Brim og segir að launin skipti ekki máli því reiknireglan taki launin út fyrir áður en gjaldið er lagt á. Nú, það var mjög athyglisvert. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra veit ekki að fyrirtæki borga laun af afkomu sinni. Ef þau hafa ekki neina afkomu, ef enginn hagnaður er í greininni, er mjög erfitt fyrir fyrirtæki að borga laun. Það getur jafnvel verið og hefur gerst að fyrirtæki sem eru utan kvóta og kaupa veiðiheimildir, leigukvóta svokallaðan, semji við sjómennina um töluvert lægri hlut. Það þykir ekki fínt en er samt til staðar vegna þess að fyrirtæki borga laun eftir getu sinni. Ef gengur mjög vel hjá fyrirtæki þekkja þeir sem hafa unnið hjá slíkum fyrirtækjum að það er tiltölulega auðveldara að fá launahækkun en hjá fyrirtæki sem er á leiðinni að fara á hausinn. Um leið og álögur eru lagðar á fyrirtæki er það síður fært um að borga há laun. Það er mjög einfalt. Þetta þurfa menn að hafa í huga, jafnt sjómenn sem landverkafólk og aðrir sem vinna í greininni. Þetta mun hafa áhrif upp alla greinina, líka í vinnslunni, þó það sé ekki beint samhengi þar á milli. Það er reyndar gert ráð fyrir hérna þótt ég sjái ekki hvað vinnslan kemur auðlindinni við. Þetta mun hafa áhrif á vinnslu og þetta mun hafa áhrif á markaðssetningu og sölu hjá fyrirtækjunum sem í mínum huga er ekki síður mikilvæg en sjómaðurinn og fiskvinnslufólkið.

Ég er ekki búinn að fara í gegnum nefndarálit 1. og 2. minni hluta. Ég ætla að geyma mér það. Ég er að miklu leyti sammála þeim nefndarálitum. Ég fór að einhverju leyti í gegnum nefndarálit meiri hlutans, ég er ekki búinn að klára það alveg. Þetta eru mjög áhugaverð nefndarálit og mér finnst þau öll vel unnin, ég vil að taka það fram, þótt ég sé ekki sammála nefndaráliti frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Síðan eru hérna tvær eða þrjár breytingartillögur, ein mjög viðamikil, frá meiri hlutanum. Ég er búinn að fara í gegnum nokkur atriði eins og það að hækka fastagjaldið sem er stórhættulegt að mínu mati. Svo er tillaga frá Þór Saari um að allir borgi bara 99 kr. á hvert þorskígildi, það gæti svo sem verið lausn að hafa eitthvað slíkt, ekki endilega 99 kr. en eitthvert gjald sem gilti í tvö ár meðan menn væru að draga andann og reyna að ná sáttum á milli stríðandi fylkinga.

Svo er breytingartillaga frá hv. þingmönnum Atla Gíslasyni og Jóni Bjarnasyni þar sem er talað um ráðstöfun veiðigjalda. Þar kemur einmitt fram þessi hugsun um landsbyggðina og hvernig menn ætla að halda byggð í landinu og slíkt, sem ég held að menn eigi ekki að gera með því að deila út peningum eftir fyrirframgefinni formúlu. Það er nefnilega ekki þannig að hægt sé að skipuleggja efnahagslífið ofan frá.