140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög áhugaverðar pælingar. Það er rétt að á tyllidögum hafa stjórnmálamenn gjarnan talað um að flytja verkefni út á land en þegar til þess kemur lyppast menn niður. (Gripið fram í: Ekki framsóknarmenn …) — Ekki framsóknarmenn, nei, það er rétt, það hefur víst dálítið gerst í þeim efnum, en þetta er alltaf voðalega erfitt vegna þess að það þarf að flytja fólk frá höfuðborgarsvæðinu út á land, alla vega fyrsta kastið. Ég man eftir öllum þeim átökum sem voru við flutning stofnunar til Akraness, sem er eiginlega orðið úthverfi höfuðborgarsvæðisins, þau voru heilmikil.

Ég held að lausnin sé að minnka hreinlega ríkið. Um leið og við minnkum ríkið hafa menn meira bolmagn til að fjárfesta úti á landi. Það eru geysilega mörg tækifæri finnst mér með netvæðingu, með ljósleiðaravæðingu og öllu slíku. Það skiptir í rauninni engu máli hvar t.d. verkfræðingur situr sem er að reikna eða teikna hús í Hong Kong. Alþjóðavæðingin getur leitt til þess að fólk fari að nýta kosti landsbyggðarinnar, kosti sveitanna, og það hvað heimurinn hefur skroppið saman með netinu.

Ég er ekki hrifinn af því að skattleggja mismunandi eftir landsvæðum vegna þess að það býður heim spillingu og misnotkun sem er að mínu mati ærin fyrir. Menn skrá þá lögheimili einhvers staðar úti á landi og búa áfram í Reykjavík og njóta þannig skattfrelsis. Ég er ekki hrifinn af því.

Ég mundi gjarnan vilja skoða að búa til forsendur fyrir því að fólk vinni úti á landi og búi þar.