140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög athyglisverð spurning og mjög athyglisverð pæling vegna þess að fyrirtæki er ekki bara að veiða fisk í sjávarútvegi, það er líka að gera eitthvað úr honum sem er þá framleiðslan, jafnvel að flytja hann nýjan til útlanda, og svo er það markaðssetningin. Markaðssetningin er mjög mikilvæg. Hún kostar. Það þarf að vera hvati fyrir hana. Málið er að ég er hræddur um að þetta frumvarp eyðileggi þann hvata. Við fáum mjög gott verð fyrir auðlind okkar vegna þess að markaðssetningin er mjög góð og það er vegna þess sem ég nefndi áðan í ræðu minni að auðlind yrði ekki til nema með mannauði. Það er mannauður bundinn í sjávarútvegsfyrirtækjunum, frábærum veiðiaðferðum, frábærri tækni við veiðiaðferðir og frábærri tækni í vinnslu. Ég hef horft á svona fyrirtæki, þetta er eiginlega tölvuheimur. Síðan er frábær tækni notuð við markaðssetningu, mikil samkeppni er á því sviði og þar standa fyrirtæki sig mjög vel. Það er mjög mikill mannauður í sjávarútvegi.

Ég óttast að það frumvarp sem við ræðum hérna með öllum þessum sovétreglum og föstu reglum og mikilli skattlagningu þegar vel gengur og engri þegar illa gengur og allt það, svo maður tali nú ekki um frumvarpið sem við ræðum ekki og er í nefnd, frumvarpið sem takmarkar framsal og allt það — það er stórhættulegt fyrir íslenska þjóð að fá yfir sig svona sovétkerfi sem er hvergi nokkurs staðar við lýði. Það er löngu búið að leggja þetta af í Sovétríkjunum og Rússlandi, þetta er hvergi við lýði. Menn eru að taka upp svona kerfi á Íslandi. Ég óttast að fyrir það muni allur sjávarútvegurinn líða.