140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í fyrstu ræðu minni fór ég yfir nokkur sérfræðiálit sem bárust þinginu, nánar tiltekið hv. atvinnuveganefnd, vegna þessa máls og það er ekki ofsögum sagt að þau álit hafi verið mjög afdráttarlaus um þá miklu galla sem á þessu frumvarpi eru. Ég hef hugsað mér að halda áfram þar sem frá var horfið í þessari yfirferð, enda er tilgangurinn með þessum umræðum hér að reyna að bæta málið með því að benda á gallana og helst hugsanlegar lausnir.

Áður en ég held áfram þar sem frá var horfið í síðustu ræðu verð ég að nefna áhyggjur mínar af þeirri umræðu sem hefur farið fram um þetta mál, bæði í þingsal í dag af hálfu nokkurra hv. stjórnarliða og í fjölmiðlum, vegna þess að umræðan og röksemdafærsla þess fólks sem leggur fram þetta mál og berst fyrir samþykki þess bendir því miður allt of oft til þess að menn hafi hreinlega enga hugmynd um hvað verið er að leggja fram — hafi í fyrsta lagi ekki kynnt sér sérfræðiálitin sem ég nefndi, en leggi auk þess sjálft mat á eigið frumvarp á röngum forsendum. Ég skal nefna dæmi.

Hér hafa hv. þingmenn stjórnarliðsins talað mikið um framlegð, að framlegð í íslenskum sjávarútvegi sé svo mikil að það megi vel leggja á hana enn hærri gjöld en gert er ráð fyrir í því frumvarpi sem við erum að ræða. Einn hv. þingmaður nefndi það hér áðan að framlegð í íslenskum sjávarútvegi væri á við það sem gerðist í gosdrykkjaframleiðslu í Bandaríkjunum. Það þótti hv. þingmanni til marks um það að framlegðin væri gríðarlega mikil. Í ræðu hans, og raunar mátti skynja það sama í ræðum fleiri hv. þingmanna, var ekki annað að heyra en hv. þingmenn vissu ekki hvað orðið framlegð þýddi og væru því að leggja mat á þessar tillögur út frá ranghugmyndum eða misskilningi. Framlegð er einfaldlega tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði — breytilegum kostnaði.

Af því að dæmið um gosdrykkjaframleiðendur í Bandaríkjunum var nefnt getum við sagt til einföldunar, gefið okkur dæmi, um að það kosti sem nemur 30 kr. að framleiða hverja gosdós þegar búið er að byggja verksmiðjuna og ráða fólk til starfa og þar fram eftir götunum. Þá má með rökum nokkurra stjórnarliða í umræðu um þessi mál halda því fram að framlegðin af hverri gosdós sé 70 kr. ef hún er seld á 100 kr., lítum fram hjá skattgreiðslum. Með öðrum orðum, fyrst hver gosdós skili 70 kr. framlegð hljóti bandaríska ríkið að geta skattlagt þennan iðnað með þessa gríðarlega miklu framlegð og sett til að mynda 30 kr. gosskatt eða gosgjald á hverja dós og gert gosdrykkjaframleiðslu í Bandaríkjunum að miklum tekjustofni fyrir ríkið og vegna þess að framlegðin sé 70 kr. séu 30 kr. ekki svo mikið, menn hafi áfram 40 kr. í framlegð.

Hver væri gallinn á þessu fyrirkomulagi? Hann er auðvitað sá að þegar menn tala um framlegð gleyma þeir að taka með í reikninginn allan fasta kostnaðinn. Það kostaði auðvitað gosdrykkjaframleiðandann töluvert að byggja verksmiðjuna, kaupa öll tækin og líklega tók hann lán til þess og þarf að borga af þeim vexti á hverju ári. Svo er auðvitað fjöldi fólks á föstum launum við það að vinna hjá gosdrykkjaframleiðandanum. Hann þurfti kannski að kaupa gríðarlega stóran bílaflota og þyrfti því að kaupa eldsneyti á bílaflotann og borga ökumönnum laun til að keyra gosdrykkina um allt land. Þannig mætti lengi telja. Hugsanlega er því meðalkostnaðurinn við hverja framleidda gosdós 90 kr.

Hvaða áhrif hefði það þá að leggja 30 kr. gosdrykkjagjald á hverja dós? Það mundi einfaldlega þýða að fyrirtækið tapaði 20 kr. af hverri seldri dós. Svo að ég rifji upp forsendurnar sem ég gaf mér þá voru 30 kr. í breytilegan kostnað við hverja dós og í ofanálag 60 kr. í fastan kostnað, flutningskostnað og slíkt, söluverð 100 kr., þannig að það væri 10 kr. hagnaður af hverri seldri dós. Samkvæmt kenningum stjórnarliða yrði 30 kr. gjald lagt á hverja dós vegna þess að framlegðin væri svo mikil en það þýddi að fyrirtækið tapaði á hverri seldri dós og færi fljótlega á hausinn.

Því miður er það sem við sjáum á áliti allra sérfræðinga sem um þetta hafa fjallað að miðað við þá gjaldtöku sem áformuð var stæðu fyrirtækin einfaldlega ekki undir henni. Kannski er skýringin sú að stjórnarliðar hafa ekki hugmynd um hvað framlegð þýðir, gera sér ekki grein fyrir fasta kostnaðinum og halda nánast að allt sem fæst fyrir hvern seldan fisk séu hreinar tekjur. Af umræðunum má helst skilja að þær fari eingöngu til eigenda fyrirtækjanna. Eins og komið hefur fram hér fyrr í kvöld gleyma menn líka laununum og telja að þau komi einhvers staðar allt annars staðar frá, eins og skilja mátti á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í sjónvarpsfréttum fyrr í kvöld.

Kannski er þetta allt saman á misskilningi byggt. Þá væri nú gott ef menn brytu odd af oflæti sínu og hlustuðu á sérfræðingana sem benda á alla gallana við þær tillögur sem hér eru til umræðu. Það virðist vera að þrátt fyrir allt tal um fagleg vinnubrögð, upplýsta umræðu og sérfræðiþekkingu eigi það eingöngu við þegar hægt er að finna einhverja sérfræðinga sem tala máli ríkisstjórnarinnar og samþykkja það sem hún hefur þegar gefið sér sem niðurstöðu. Ef mat sérfræðinganna fer ekki saman við það sem stjórnarliðar hafa ákveðið, jafnvel þó að það sé byggt á misskilningi eða röngum forsendum, er ekkert gert með mat þeirra. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni almennt í störfum þingsins, en þó sérstaklega þegar um er að ræða hagsmuni sem varða grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, hagsmuni sem varða allan almenning í landinu.

Annað sem mér gremst við að fylgjast með umræðunni er orðræðan sem minnir helst á hvernig talað var hér á millistríðsárunum af hálfu íslenskra kommúnista þar sem stjórnarliðar gefa sig stöðugt út fyrir að vera einu fulltrúar fólksins, almannahagsmuna, en aðrir séu fulltrúar einhverra sérhagsmuna. Það eru hagsmunir alls almennings í landinu að með þá mikilvægu og verðmætu auðlind sem sjávarauðlindin er sé farið á þann hátt að hún skili sem mestum arði til þjóðarinnar, sem mestum verðmætum. Þess vegna eru það hagsmunir alls almennings, það eru ekki sérhagsmunir, að búa til það kerfi, það fyrirkomulag, sem hvetur til sem hagkvæmastrar nýtingar og að verð fyrir auðlindina sé sem hæst til að auðlindin nýtist samfélaginu sem best, til að samfélagið allt fái sem mest út úr auðlindinni. Það á að vera markmiðið þegar menn semja frumvörp um stjórn fiskveiða. Í staðinn fáum við alveg dæmalausa orðræðu þar sem menn láta eins og þeir einir séu fulltrúar fólksins. Við höfum því miður oft heyrt slíka umræðu í gegnum tíðina, þá helst í ríkjum þar sem stjórnvöld hugsa ósköp lítið um hagsmuni fólksins. Það er reyndar fylgni þar á milli að þeim mun meira sem stjórnmálamenn tala eins og þeir séu hinir einu sönnu fulltrúar þjóðarinnar eða fólksins þeim mun verr fer fólkið út úr stjórnarfari þeirra.

Hér til að mynda fyrr í dag kom hv. þm. Skúli Helgason nánast eins og beint úr tímavél frá 1930 og sagði að þeim sem rækju útgerðarfyrirtæki, þeim sem störfuðu í sjávarútvegi, væri, svo að notað sé orðbragð hv. þingmanns, „skítsama“ um starfsmenn sína. Það er undarlegt að heyra slíkt orðalag á þessum tímum og ber vott um ótrúlega vanþekkingu á störfum í þessari grein eins og sjá má af fjölmörgum ályktunum sjómanna og landverkafólks gegn þeim tillögum sem hér eru til umræðu. Hverjum er skítsama um þetta fólk? Hvort eru það þeir sem vilja hámarka arðinn af auðlindinni og borga í flestum tilvikum, vonandi en auðvitað ætti það að vera í öllum, sanngjörn laun fyrir vinnuna eða stjórnvöld sem koma fram með tillögur sem beinlínis eyðileggja verðmæti og draga úr getu fyrirtækjanna til að borga sjómönnum og verkafólki sæmileg laun?

Í gær ályktuðu á fimmta hundrað manns á fundi í Vestmannaeyjum, sjómenn og landverkafólk, samhljóða um að með því frumvarpi sem við ræðum væri vegið að kjörum sjómanna og landverkafólks. Samt leyfa hv. stjórnarliðar sér að koma hingað upp með algjörlega innantómar yfirlýsingar og jafnvel svívirðilegar um að allir nema þeir séu að níðast á almenningi, einmitt þegar sama fólk leggur fram frumvörp sem skaða hagsmuni alls almennings.

Margir stjórnarliðar hafa líka rætt um það hversu miklir vinir landsbyggðarinnar þeir séu, ekki hvað síst hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hér áðan, og sagst vilja styrkja stöðu hennar.

Hvert er mat sveitarfélaga á landsbyggðinni á þeim tillögum sem hér eru til umræðu? Það verður ekki hjá því komist að líta aðeins á það því að það er mjög afdráttarlaust. Skoðum til að mynda greinargerð sem barst atvinnuveganefnd Alþingis frá Dalvíkurbyggð. Ég les bara síðasta kaflann undir fyrirsögninni „Umsögn um mál nr. 658 – frumvarp til laga um veiðigjöld“, með leyfi forseta:

„Hið sérstaka veiðigjald virðist mjög hátt en það felur í sér að minnsta kosti sexföldun á núverandi gjaldi. Bæjarráð hefur áhyggjur af örlögum útgerðarfyrirtækja sem keyptu viðbótarveiðiheimildir eftir þorskniðurskurðinn 2007 og skuldsettu sig þess vegna. Það er ljóst að fyrirtæki munu þurfa að hagræða og endurskipuleggja í kjölfar svo mikillar hækkunar veiðigjalds, ef þau lifa hana af, því hið sérstaka veiðigjald sem ætlað er að skila auðlindarentunni til þjóðarinnar tekur mið af heildararðsemi í greininni, veiðum og vinnslu, en ekki stöðu eða arðsemi einstakra fyrirtækja. Þau borga sitt krónugjald miðað við heildarafkomu greinarinnar, ekki fyrirtækis síns. Á það hefur verið bent að þetta fyrirkomulag kunni að kippa stoðunum undan fiskvinnslu án útgerðar þar sem útgerðir án fiskvinnslu muni í vaxandi mæli telja sig þurfa að hafa eigin vinnslu til að ná sem mestri arðsemi út úr rekstri sínum. Þar með er fiskvinnsla án útgerðar í mikilli hættu því minna verður á fiskmörkuðum. Á Dalvík eru tvö rótgróin fjölskyldufyrirtæki með samtals um 70 manns í fiskvinnslu, án útgerðar.

Daði Már Kristófersson og Þóroddur Bjarnason sem settu saman álit fyrir ríkisstjórnina um áhrif frumvarpanna búast við „umhleypingum á næstu árum meðan útgerðin lagar sig að breyttum aðstæðum“ og segja að áformuð lagasetning muni verða „mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja“. Enn fremur að hækkun veiðigjalds muni án efa „kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum“. Það er mat bæjarráðs að landsbyggðin hafi fengið næga ,,umhleypinga“ á undanförnum árum og að ekki sé á það bætandi. Þá er það galli að það frumvarp sem boðað er um breytingar á skattalöggjöf skuli ekki liggja fyrir jafnhliða frumvarpi um veiðigjöld.

Samkvæmt úttekt KPMG mun veiðigjald skipa og báta frá Dalvíkurbyggð verða tæplega 700 millj. kr. Þá má ætla að þeir fjármunir sem koma úr 40% af andvirði þess sem leigt er upp úr leigupotti og eiga samkvæmt frumvarpi að ganga til sveitarfélaga verði á bilinu 7–40 millj. kr. miðað við skiptingu eftir íbúafjölda. Það er skoðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar að leigugjald úr potti eigi að ganga beint til sveitarfélaga til að mæta þeirri mögulegu útsvarslækkun sem þau verða fyrir og þá í samræmi við mikilvægi sjávarútvegs á hverjum stað. Þá eigi að nýta hið sérstaka veiðigjald til uppbyggingar innviða í landinu. Þannig yrði arðurinn sýnilegur og nýttist öllum landsmönnum.

Bæjarráð ítrekar þá afstöðu að hafa þurfi gott samráð um breytingar á kerfinu sem geti skilað almennri sátt í málinu og að sem fyrst verði eytt óþarfa óvissu og óöryggi þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Bæði þær fjölskyldur sem lifa af sjávarútvegi og þau sveitarfélög sem byggja afkomu sína á nýtingu þessarar mikilvægu auðlindar þurfa á traustara starfsumhverfi að halda.

Fyrir hönd bæjarráðs Dalvíkurbyggðar

Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri“

Ég vek athygli á því að bæjarstjórinn í Dalvíkurbyggð er ekki einhver sem almennt væri hægt að skilgreina sem pólitískan andstæðing ríkisstjórnarinnar.

Þetta er greinargóð, stutt lýsing á áhrifum þess frumvarps sem við ræðum hér á eitt byggðarlag. Lýsingarnar eru fjölmargar því að sveitarfélög um allt land hafa sent aðvaranir vegna þessara frumvarpa, ekki hvað síst frumvarpsins um hækkun veiðigjalda, til Alþingis og bent á hversu víðtæk og skaðleg áhrif frumvörpin hefðu á byggðirnar.

Þrátt fyrir þetta koma þingmenn hingað upp og reyna að telja sjálfum sér trú um það, og jafnvel öðrum, að þeir séu með þessu á einhvern hátt að styrkja stöðu landsbyggðarinnar, þótt fulltrúar hvaðanæva að af landsbyggðinni séu á einu máli um skaðsemina sem af þessu hlýst. En þar eins og í tilviki sérfræðiálitanna kjósa stjórnarliðar einfaldlega að líta fram hjá ábendingunum, láta eins og þeir sjái þær ekki og halda áfram millistríðsorðræðu sinni og yfirlýsingum um að þeir séu einu fulltrúar fólksins í landinu, enda þótt bæði sérfræðiálit þeirra sem starfa í greininni og álit frá sveitarfélögum vítt og breitt um landið sýni fram á að það er alls ekki raunin.

Mér sýnist ég hafa tíma, virðulegur forseti, til að fara stuttlega yfir annað álit frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð. Reyndar verð ég að láta nægja að lesa síðustu línurnar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Bæjarráð ítrekar bókun bæjarstjórnar frá 9. júní 2011 um að mikilvægt sé að stjórnvöld og hagsmunaaðilar setjist aftur að sáttarborði og vinni að frumvarpi um sjávarútvegsmál sem styrki greinina til framtíðar, sníði þá agnúa af kerfinu sem hvað mest eru umdeildir með hagsmuni íslensks samfélags að leiðarljósi.

Það liggur ljóst fyrir að boðuð frumvörp munu hafa mikil áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna í Fjarðabyggð. Fyrir liggur að svigrúm fyrirtækjanna til fjárfestinga mun verða mun minna sem um leið hefur áhrif í samfélaginu þar sem margir stórir og smáir þjónustuaðilar byggja rekstur sinn á ýmiss konar þjónustu við greinina. Skattheimta á þeim mælikvarða sem boðuð er í frumvörpunum er gríðarleg færsla á fjármunum frá samfélaginu hér á Austfjörðum í ríkissjóð.

Þegar gerðar eru breytingar á umhverfi atvinnugreinar eins og sjávarútvegs, sem snertir afkomu og starfsöryggi fjölda fyrirtækja og starfsmanna þeirra um allt land, er nauðsynlegt að allir hagsmunaaðilar komi að því verki.

Bæjarráð Fjarðabyggðar telur að tillögur „sáttanefndarinnar“ hafi verið skref í rétta átt þar sem allir hagsmunaaðilar náðu niðurstöðu um þær breytingar sem hægt er að gera og yrðu í sátt við þjóðina.

Eins og fram hefur komið, og færð eru rök fyrir í þessu erindi, mun frumvarpið í þeirri mynd sem það liggur fyrir hafa veruleg neikvæð áhrif á atvinnulíf á svæðinu, tekjur sveitarfélagsins og samfélagið í Fjarðabyggð.

Bæjarráð Fjarðabyggðar mótmælir því framlögðum frumvörpum og hvetur stjórnvöld til að boða til breiðs samráðs um sátt og framtíð fiskveiðistjórnar og auðlindaskatt á íslenskan sjávarútveg.“

Þetta sýnist mér vera frá bæjarráðinu öllu. Það er nefnilega gegnumgangandi í þessu máli að umsagnir fara ekki eftir því hvaða flokkar eru við völd á hverjum stað, í þeim eru einfaldlega fulltrúar fólks í hverju sveitarfélagi að benda á staðreyndir málsins.

Eins og sjá má á þeim tveimur dæmum sem ég hef lesið hér upp úr er líka ákall um það að menn ráðist í samstarf og samræðu við þá sem starfa í greininni, fólkið í landinu, um þessar breytingar í þeirri von að það megi koma þar inn (Forseti hringir.) einhverri skynsemi.