140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er ótrúlegt en satt að forsendur þessara tillagna eru þær að gengi gjaldmiðilsins verði áfram lágt og um leið forsendur svokallaðrar fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar sem á að gilda á næsta kjörtímabili ef Samfylkingin nær að halda völdum.

Hv. þingmaður spurði út í núverandi kerfi og galla þess, hvort skorti þar á samkeppni og hagkvæmni. Það má alveg taka undir það með hv. þingmanni að á núverandi kerfi eru ýmsir gallar. Reyndar held ég að stór hluti ástæðunnar fyrir því hversu stirt kerfið er og markaður lítill, eins og ég held að hv. þingmaður hafi orðað það, eða áhrif markaðarins takmörkuð, sé sá mikli kostnaður sem útgerðarfyrirtæki hafa lagt í vegna hagræðingarinnar sem hefur verið undanfarin 30 ár. Það er auðvitað búið að vera mjög dýrt fyrir þá sem eftir eru í greininni að kaupa aðra út og halda svo rekstrinum gangandi þrátt fyrir síendurtekinn niðurskurð aflaheimilda.

Það eru ýmsir gallar á kerfinu. Ég deili ekki við hv. þingmann um það, enda erum við vonandi báðir sammála um að mikilvægt sé að gera breytingar á kerfinu til úrbóta. Það er eitt af því sem er svo slæmt við þá nálgun sem við ræðum hér á tillögur stjórnarflokkanna að þeir koma í raun í veg fyrir nauðsynlega umræðu og nauðsynlegar úrbætur á kerfinu.

Til að svara svo lokaspurningu hv. þingmanns um tilfærslurnar þá eru menn auðvitað í þessum tillögum að færa sömu hlutina fram og til baka en ekki að skapa ný verðmæti, í rauninni þvert á móti — þeir eru að draga úr verðmætasköpun.