140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að ræða hv. þingmanns var ákaflega athyglisverð. Hægt væri út af fyrir sig að fara í ýmsa þætti ræðunnar og spyrja nánar út í þá. Ég ætla aðeins að dvelja við einn þátt, þ.e. vangaveltur hv. þingmanns um framlegðina sem gengur eins og rauður þráður í gegnum þessa umræðu alla vegna þess að veiðigjaldið ræðst svo mikið af framlegðinni eins og allir vita.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að eins og stjórnarliðar hafa talað mætti ætla að framlegðin væri hin endanlega tala út úr rekstrarreikningi fyrirtækja. Það er eins og menn geri ekki ráð fyrir því að menn þurfa að standa undir föstum kostnaði, fjármagnsliðum og þess háttar. Auðvitað er það þannig að framlegðin segir einhverja sögu, til dæmis um rekstrarárangurinn. Hins vegar er staðan í sjávarútveginum dálítið sérstök. Í fyrsta lagi er það einatt þannig að afkoman í sjávarútveginum er mjög mismunandi milli einstakra greina. Við sjáum aftur í tímann að framlegðin og reksturinn í uppsjávarfiskinum var frekar slök og hefði til dæmis gefið neikvæða rentu miðað við útreikninga ríkisstjórnarinnar. Núna er framlegðin þarna hins vegar góð, hún er lakari annars staðar en hún er almennt talað góð í greininni. Í öðru lagi er staða fyrirtækjanna í sjávarútveginum misjöfn. Meðaltalstölurnar segja ekki alla söguna.

Þegar ég segi að staða fyrirtækjanna sé misjöfn þá er það svo að sum fyrirtæki hafa orðið að fara í fjárfestingar sínar í óefnislegum eignum á síðustu árum, til dæmis í krókaaflamarkinu sem var einfaldlega ekki til fyrir 10 árum. Það að ætla sér að setja hátt veiðigjald á þann hluta útgerðarinnar — eins og menn hefðu látið sér detta það í hug fyrir 10, 15 árum að setja svona mikið veiðigjald, 15 milljarða, á sjávarútveginn, það hefði auðvitað engum dottið í hug þá. Þetta segir okkur hversu illa þetta mál var hugsað í upphafi þó að núna væri búið að einhverju leyti að koma til móts við það.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái þetta núna, hvernig sýn hans sé á sjávarútveginn í ljósi mismunandi (Forseti hringir.) framlegðar og mismunandi stöðu greinanna af ástæðum sem þeir sem reka fyrirtækin höfðu lítið um að segja?