140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og það sem jók við það sem hann var áður búinn að ræða um framlegðina fannst mér áhugavert.

Mig langar að rifja aðeins upp að í umsögn Alþýðusambands Íslands er fjallað dálítið um þetta einmitt út frá sjónarhóli framlegðarinnar. Þar er vakin athygli á því sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið óþreytandi að segja okkur sem er það að þetta fyrirkomulag sé mjög næmt fyrir afkomubreytingum í sjávarútvegi. Það er talið þessu frumvarpi mjög til tekna að þegar hagur útvegsins versnar lækkar veiðigjaldið eða veiðiskatturinn. Þegar hann batnar hækkar veiðiskatturinn, segir hæstv. ráðherra.

Alþýðusamband Íslands hefur velt þessu aðeins fyrir sér. Þeir hafa skoðað hvaða áhrif það hefði til dæmis á veiðiskattinn ef gengi krónunnar mundi styrkjast um 20%. Af hverju segja þeir 20%? Jú, það er nefnilega þannig að ein af forsendum kjarasamninganna er að gengi krónunnar styrkist um 20% fyrir lok þessa árs. Þeir eru að vísu mjög svartsýnir á að það gangi eftir af ástæðum sem blasa við öllum mönnum, en engu að síður segja þeir: Gefum okkur að gengi krónunnar styrkist um 20%. Hvað gerist þá varðandi veiðiskattinn? Miðað við frumvarpið sem gekk út á að veiðiskatturinn yrði 24–25 milljarðar kr. er það niðurstaða Alþýðusambands Íslands að veiðiskatturinn gæfi ekki 24–25 milljarða miðað við frumvarpið heldur 8–9 milljarða. Með öðrum orðum, botninn er dottinn algjörlega úr þeirri hugmynd um að eyða síðan þeim peningum til þarflegra verkefna til dæmis í vegamálum og slíkra hluta, vegna þess að ef gengi krónunnar styrkist er stór hluti veiðiskattsins horfinn.

Þá vaknar spurningin: Er það ekki ljóst mál — ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeirri skoðun með mér — að framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er sú að í fyrirsjáanlegri framtíð verði gengi krónunnar álíka veikt og er núna? Er þetta meðvituð stefna? Hæstv. ráðherra svaraði andsvari mínu þannig á föstudagskvöldið að hann væri andsnúinn eða ósammála Alþýðusambandinu um að gengi krónunnar ætti að styrkjast um 20%. Þá vitum við það. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra er ósammála þessu og vill þá að kjarasamningarnir af þeim ástæðum geti mögulega farið í uppnám.