140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefnir annað sláandi dæmi um það hversu illa unnin þessi frumvörp eru. Ekki aðeins skortir skilning á grundvallarhugtökunum sem unnið er út frá heldur eru forsendurnar líka í beinni andstöðu við forsendur annars staðar. Forsendur kjarasamninga stangast á við forsendur þessara frumvarpa. Hv. þingmaður sagði að vísu að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði lýst sig ósammála því að gera ætti ráð fyrir styrkingu krónunnar en það þýðir þá að hæstv. ráðherra hefur annaðhvort skipt um skoðun frá því kjarasamningar voru gerðir eða gert kjarasamninga á röngum forsendum.

Mér þykir reyndar líklegasta ástæðan fyrir þessu ósamræmi vera sú eins og ég kom reyndar inn á í ræðu minni og fyrri andsvörum að menn hafi ekkert haft fyrir því að reikna dæmin út, hafi ekki einu sinni kynnt sér grundvallarhugtökin sem þeir eru að fást við. Þeir byrja á því að búa til einhverjar tillögur, reyna síðan að aðlaga forsendurnar að þeim. Þegar það gengur ekki upp fara menn í upphrópanir um að allir þeir sem gagnrýna þá séu gæslumenn sérhagsmuna, óvinir alþýðunnar eða eitthvað slíkt.

Ég náði ekki áðan að klára að svara alveg til fulls andsvari hv. þingmanns um ólíka stöðu fyrirtækja sem eru öll skattlögð á sama hátt. Það er vissulega einn af mörgum göllum við þetta frumvarp en ég held að besta lausnin á því vandamáli sé að skattleggja einfaldlega hagnað sjávarútvegsfyrirtækja og hafa þá skattlagningu jafnvel hærri en annars staðar gerist. Það er að vísu almennt ekki góð regla að hafa misháa skatta á ólíkar atvinnugreinar en til að koma til móts við þau sjónarmið að menn verði núna þegar vel gengur að greiða gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar mætti með mestri hagkvæmni (Forseti hringir.) ná því fram í gegnum tekjuskattskerfið.