140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur einmitt vantað svolítið í þessa umræðu að menn skoði þetta dæmi í heild. Við höfum séð merkilegt fyrirbæri sem kallast sjávarklasinn hér á landi — ég kalla hann fyrirbæri — sem er að reyna að halda utan um og ná utan um öll þau verkefni sem eru í tengslum við sjávarútveginn beint og óbeint, þar á meðal eru mörg fyrirtæki eða verkefni er tengjast nýsköpun, tækni og þróun. Mörg þessara verkefna hafa orðið til vegna samstarfs fyrirtækja eða manna, sem eru með fínar hugmyndir, og fyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa lagt til fjármuni, aðstöðu, þekkingu og reynslu, bæði um borð í skipum og í landi. Þar af leiðandi hefur orðið til samstarf milli fyrirtækjanna sem mér er sagt að sé að mörgu leyti einstakt þegar við horfum til samkeppnislanda okkar. Það er ekki nóg með að við séum með sjávarútveg sem nýtur engra ríkisstyrkja og er vel rekinn heldur erum við líka með sjávarútveg sem starfar mikið með fjölda fyrirtækja í þróun og nýsköpun.

Maður sér fyrir sér, frú forseti, að þegar dæmið verður skoðað í heild verði þetta kannski sá hluti sem fyrst verði farið í að skera niður eða látinn mæta kostnaði sem verður til annars staðar. Síðan munu menn fara inn í fyrirtækin og svo koll af kolli. Þar af leiðandi held ég að áhrifin verði jafnvel meiri og fyrr í þessum greinum og geira en menn hafa gert sér grein fyrir.

Það sem gleymist líka er að mikil hætta er á að sá mannauður sem hefur orðið til í sjávarútveginum og í tæknigreinunum tengdum sjávarútveginum fari annað, menn leiti annað með hugmyndir sínar og þekkingu. Það er nokkuð sem við megum að sjálfsögðu ekki láta gerast. Þar af leiðandi er mjög mikið undir því komið að sjávarútvegurinn verði áfram öflugur, verði áfram vel rekinn, hafi getu til að fjárfesta og setja fjármuni í tækni og nýsköpun. Það hlýtur að vera verkefni okkar að sjá til þess að þessi frumvörp komi ekki í veg fyrir slíkt.