140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er feginn að heyra að hv. þingmaður er sammála því mati mínu að það frumvarp sem við ræðum sé byggt á vægast sagt mjög gölluðum forsendum. Svo virðist vera af umræðu um þetta mál að dæma, af orðum stjórnarliða og flutningsmanna frumvarpsins, sem þeir hafi hreinlega misskilið eða kosið að líta fram hjá nauðsynlegum forsendum.

Til að mynda virðast menn ekki gera sér grein fyrir því hvað orðið framlegð þýðir og telja að framlegð sé hreinn hagnaður sem hægt sé að taka stórt hlutfall af. Í stað þess að fallast á ábendingar, í stað þess að taka mið af tugum álita og viðvarana sem hafa borist frá sérfræðingum, sveitarfélögum og fólki sem starfar í greininni kjósa menn að fara í ham og svara fyrir sig með orðræðu sem, eins og ég nefndi áðan, minnir helst á stjórnmálaumræðu á Íslandi á millistríðsárunum þegar talað er um sægreifa og reynt að ala á tortryggni milli hópa í samfélaginu. Hér kom einn hv. þingmaður fyrr í dag og hélt því fram að þeim sem rækju fyrirtæki í sjávarútvegi væri, svo að vitnað sé beint í hv. þingmann, frú forseti, „skítsama“ um starfsmenn sína. Þetta finnst mér vera verulegt áhyggjuefni.

Ég vildi gjarnan heyra álit hv. þingmanns á hættunni sem fylgir slíkri orðræðu en einnig hvort hv. þingmaður sé sammála mér um það að flest þau rök sem hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa haft fram að færa í þessu máli undanfarna daga hnígi að því að hér verði öll útgerð á hendi ríkisins, ríkið sjái einfaldlega (Forseti hringir.) um útgerðina.