140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar þá orðræðu sem hv. þingmaður vitnar til er ég mjög sammála honum um að það er engan veginn eðlilegt eða við hæfi hvernig sumir hv. þingmenn og aðrir hafa talað um þessa atvinnugrein og þá sem í henni starfa.

Ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, að þeir sem tala með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsti úr ræðustól áðan, með tilvitnun í annan hv. þingmann, eru rökþrota. Þeir ætla sér ekkert að ræða þetta mál út frá rökum. Þeir ætla sér að vinna pólitíska sigra með upphrópunum, með því að setja merkimiða á fólk, með því að gera því upp hvatir og með því að sverta heila atvinnugrein. Það eru rökþrota menn sem þannig tala.

Hvað varðar misskilning á mörgum af þeim grundvallaratriðum sem reynt er að byggja á í þessu frumvarpi get ég líka tekið undir með hv. þingmanni. Maður hefði haldið að úr því að til stóð að búa til frumvarp sem ætlað var að grípa utan um auðlindarentuna þá yrðu fengnir til þess starfa sérfræðingar á því sviði, kallaðir væru fram sérfræðingar á sviði auðlindahagfræði sem hefðu djúpan skilning á hugtakinu auðlindarenta og rentuhugtakinu í hagfræðinni. Ég verð að segja eins og er, að þegar litið er til þeirra sem eru skrifaðir fyrir þessu frumvarpi og hafa unnið tæknivinnuna þar að baki er ekkert sem bendir til þess að um neina slíka sérfræðiþekkingu hafi verið að ræða, heldur þvert á móti, virðulegi forseti.