140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni vannst ekki tími til að svara síðustu spurningu minni. Mér gefst því tækifæri til að endurorða hana, hún var kannski ekki alveg nógu vel orðuð. Það sem ég á við er að ýmis rök ef rök skyldi kalla sem stjórnarliðar hafa fært fyrir þeim frumvörpum sem við ræðum hér, um sjávarútvegsmál, eru þess eðlis að ef menn tryðu rökunum í raun ættu þeir allt eins að vera þeirrar skoðunar að ríkisrekstur væri hið eðlilega rekstrarfyrirkomulag sjávarútvegs. En þó að ég sé andvígur ríkisrekstri í sjávarútvegi er ég eindregið þeirrar skoðunar að stjórnvöld þurfi að haga stjórn fiskveiða þannig að sú auðlind skili sem mestu til samfélagsins alls. Þar tel ég að hinn frjálsi markaður, stefna frjálshyggjunnar, dugi ekki til, til að mynda hvað varðar stöðu byggðarlaga.

Hv. þingmaður nefndi réttilega að byggðaþróun á undanförnum áratugum hefði meira með samdrátt í veiðum að gera og óhjákvæmilega hagræðingu í sjávarútvegi (IllG: Og vitlaust gengi.) og vitlaust gengi, eins og hv. þingmaður nefndi líka, en það kerfi sem notað er til að stjórna fiskveiðum og má til sanns vegar færa.

Er hv. þingmaður sammála mér um það að hlutir á borð við tengsl fólks við upprunastað sinn eða nærumhverfi, þá bæi eða þorp sem það hefur alist upp í eða búið í lengi, séu raunveruleg verðmæti og sé því eitt af því sem huga þurfi að þegar hannað er kerfi til að stýra fiskveiðum?