140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar ríkisútgerðirnar. Já, ég held að það sé rétt að ef menn eru þeirrar skoðunar og hafa þá trú að fyrst og fremst sé hér um að ræða þjóðareign, ríkiseign, og ekki sé hægt að tryggja að þjóðin njóti arðs af nema með því að fara fram með þessari tegund af gjaldtöku, og halda áfram röksemdafærslunni enda þeir akkúrat í þeirri hugsun sem hv. þingmaður lýsti svo ágætlega og skýrt og skilmerkilega, þá enda þeir á að segja: Það borgar sig og er eðlilegt út frá hagsmunum þjóðarinnar að ríkið sjái um útgerðina.

Hvað varðar þá spurningu sem er reyndar mjög veigamikil og mikilvæg sem hv. þingmaðurinn bar upp, varðandi byggðirnar, stöðu þeirra og möguleika manna á að búa í heimabyggð sinni, er ég líka sammála hv. þingmanni um hvað það er mikilvægt og það beri að meta til verðmæta. Það er þess vegna sem ég hef alla tíð verið hlynntur einhvers konar kerfi byggðakvóta sem gripi inn í þegar byggðaþróun yrði mjög óæskileg, þar sem yrðu hraðar og óæskilegar byggðabreytingar. Nú gætu auðvitað hv. þingmenn spurt hver ætti að meta það hver óæskileg byggðaþróun er. Ég geri mér grein fyrir að það er erfitt mat, en þegar um er að ræða yfirvofandi hrun byggða eða mjög miklar breytingar í byggð, t.d. vegna þess að afli hafi verið seldur út úr byggðarlaginu eða aflaheimildir, er rétt að til sé kerfi sem grípi þar inn í. Ég tel það mjög mikilvægt.

Ég get nefnt dæmi, virðulegi forseti, um byggðarlög þar sem ríkisvaldið hefur brugðist hvað þetta varðar, þar sem hefur verið rík ástæða til að grípa til aðgerða og ekki verið gert vegna þess að ríkið var svifaseint og stóð sig illa.

Við erum því sammála, ég og hv. þingmaður, um að það eru verðmæti fólgin í möguleikum manna á að búa í heimabyggð og æskubyggð sinni. Það er þó ekki hægt að ganga óendanlega langt í því og menn verða að vera þar skynsamir. Þess vegna er ég hlynntur byggðakvótakerfi.