140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé nánast sama hvaða mál ríkisstjórnin eða þingmenn leggja fram á Alþingi, það er ekki forsvaranlegt að fara fram með málið í tímaþröng og síst mál sem snerta kannski grundvallarhagsmuni þjóðarinnar líkt og sjávarútvegsmálin eða stjórnarskrá lýðveldisins og þannig mætti áfram telja.

Mig langar hins vegar að minnast á það við hv. þingmann í þessu seinna andsvari að ég fæ ekki séð í þeim gögnum sem við höfum að frumvörpin, veiðigjaldsfrumvarpið í þessu tilviki, veiðiskatturinn, hafi verið borin saman við heimildir í stjórnarskrá, hvort það hafi á einhverjum tímapunkti rekist á við ákvæði í stjórnarskrá. Mér finnst það nokkurt áhyggjuefni.

Nú skilaði sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands, Helgi Áss Grétarsson, inn umsögn um þetta mál, um veiðiskattinn. Þrátt fyrir að hafa haft lítinn tíma til að vinna það álit telur hann upp fimm atriði sem þarf að skoða með tilliti til stjórnarskrárinnar. Meðal annars kemur fram að hann telur vafasamt að stjórnvöldum sé falið matið við ákvörðun sérstaks veiðigjalds og þau hafi heimild til að veita undanþágur, að þetta geti skarast á við jafnræði og þess háttar. Þessi sérfræðingur veltir öðrum hlutum líka fyrir sér, vitnar aðallega til 77. gr. stjórnarskrárinnar og reyndar til fleiri greina.

Ég spyr: Er ekki alvarlegt að fara fram með mál sem margir telja, og þar á meðal lögfræðingar sem hafa skilað inn athugasemdum, að geti orkað tvímælis í samanburði við stjórnarskrána, eða stjórnarskrárbundinn rétt þeirra sem sinna veiðum í dag, að fara með það í gegnum þingið eins og ekkert hafi í skorist?