140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég bað um það hér áðan að gert yrði hlé á fundi áður en hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hæfi ræðu sína til að stjórnarliðar hefðu tök á því að koma í salinn og fylgjast með og taka þátt í umræðunni. Það er nefnilega orðið mjög mikilvægt að skapa hér ákveðið mótvægi. Eftir þrjú ár af sósíalisma við stjórn landsins hafa allir í raun gefist upp á því stjórnkerfi. Þá er komin upp sú hætta að við sveiflumst frá vinstri yfir til hægri. Þess vegna er mjög mikilvægt úr því sem komið er að stjórnarliðar taki að minnsta kosti þátt í því að skapa einhvers konar jafnræði, einhvers konar jafnvægi (Gripið fram í: Ef þeir geta.) ef þeir þá geta.

Reyndar flutti hv. þm. Bjarni Benediktsson ágætisræðu hér áðan. En ég hefði talið eðlilegt, frú forseti, að stjórnarliðar, sem leggja þetta mál fram, tækju þátt í umræðunni og reyndu að mynda einhvers konar jafnvægi í þinginu því að menn hafa meira og minna gefist upp á (Forseti hringir.) stefnu ríkisstjórnarinnar, en það þýðir ekki að menn (Forseti hringir.) geti sofið á verðinum.