140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það er eins og ekki sé mikil sannfæring fyrir þessu máli hjá stjórnarliðum. Út af fyrir sig skilur maður það. Málið hefur hlotið mikla gagnrýni. Það eru sennilega fá dæmi um að mál hafi hlotið aðra eins gagnrýni, nema kannski það sjávarútvegsfrumvarp sem kom hér fram á sama tíma á síðasta ári, víðtæka gagnrýni frá öllum umsagnaraðilum.

Auðvitað er eðlilegt að stjórnarliðar komi hér og geri grein fyrir þeirri vinnu sem þeir hafa unnið og þeim breytingartillögum sem þeir hafa lagt fram á þessu frumvarpi. Það er ekki nema sjálfsögð virðing að að minnsta kosti sá ráðherra sem leggur málið fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, mál sem ríkisstjórnin telur (Forseti hringir.) eitt það mikilvægasta sem hún hefur staðið fyrir, sé hér til að hlusta á (Forseti hringir.) þessa umræðu og taka þátt í henni.

Ég hvet virðulegan forseta (Forseti hringir.) til þess að tala við ráðherra og fá hann til að (Forseti hringir.) koma á þennan þingfund.