140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér finnst þegar við ræðum þessi frumvörp frá ríkisstjórninni að menn hafi ekki sett sér nægilega skýr markmið. Það er vilji manna að nálgast hugsunina þannig að fiskstofnarnir við strendur landsins séu sameign þjóðarinnar. Það er númer eitt, tvö og þrjú og ég held að flestir séu sammála því markmiði. Spurningin er hvernig eigi að nálgast það.

Mér finnst hv. stjórnarliðar ekki hafa sagt mér eða öðrum hv. þingmönnum hvernig þeir ætli að nálgast það verkefni að ná í arð af þessari sameign þjóðarinnar, og ekki nóg með að ná í hann heldur að koma honum til þjóðarinnar. Það er kannski öllu verri og þyngri róður. Ég lít ekki á hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. sjávarútvegsráðherra sem íslenska þjóð, þau eru smáhluti af henni en langt í frá öll þjóðin. Mér finnst menn gera mikil mistök í því að vera stöðugt að tala um ríki sem þjóð. Þarna má segja að minn flokkur hafi átt þátt í því að skapa þessa hefð vegna þess að með sáttanefndinni, sem minn flokkur tók þátt í og féllst á, var í rauninni viðurkennt að sjávarauðlindir í kringum landið væru eign ríkisins en ekki þjóðarinnar því að þegar menn semja við einhvern, eins og sáttatillagan gekk út á, eru þeir að semja við eigandann. Ég er ekkert að semja við einhvern Jón Jónsson um leigu eða arð af húsi sem hann á ekki. Menn hljóta því alltaf að semja við eiganda auðlindarinnar. Mér finnst að menn séu búnir að gera þau mistök og þurfi að fara að vinda ofan af því að sjávarútvegsrentan og auðlindin séu í eigu þjóðarinnar en ekki ríkisins.

Ef við lítum á núverandi stöðu og núgildandi reglur sem hafa verið nokkuð lengi í gildi er eitt einkenni á þeim reglum og á þeirri stöðu mjög mikill skortur á markaði. Ég hugsa að velflestir hv. þingmenn trúi á markaðinn sem tæki til að finna út verð á vörum og þjónustu og til að ná fram lægsta verði sem hægt er með nægilega mikilli samkeppni. Markaður með aflaheimildir er mjög rýr, það er ekki mikið selt eða keypt af varanlegum heimildum, t.d. er mjög lítið verið að selja af fiski á markaði. Það er því eins og sjávarútvegsgreinin öll hafi ekki mikla trú á markaði.

Í þessu sambandi, frú forseti, verð ég að segja að núverandi kvótahafar hafa annaðhvort keypt kvótann dýru verði eða aldrei selt hann. Ég ætla að endurtaka þetta, frú forseti, vegna þess að það er alltaf verið að tala um kvótagreifa. Núverandi kvótahafar hafa annaðhvort keypt kvótann dýru verði fyrir íslenskar krónur eða aldrei selt hann. Það er því mjög slæmt að kalla núverandi kvótahafa kvótagreifa. Það eru frekar þeir sem hafa selt kvótann frá sér og breytt þessum réttindum í peninga sem hægt er að kalla kvótagreifa eða eitthvað slíkt en það er ekkert verið að tala um þá. Það er ekkert verið að tala um að taka eitthvað frá þeim eða skattleggja þá.

Eitt dæmi um lítinn markað er að sjávarútvegsfyrirtæki verða að veiða helminginn af aflaheimildum sínum, það er regla í dag. Það þýðir að þeir mega leigja helminginn. Ég varpaði fram í grein fyrir mörgum árum, áratug, spurningunni: Af hverju vill útgerðin ekki græða? Ég spurði vegna þess að best rekna sjávarútvegsfyrirtækið var þá með hagnað upp á 20 kr. á kíló, þorskígildiskíló, mig minnir að það hafi verið Grandi, og þá var leigukvótinn 100 kr. og Grandi hefði getað fimmfaldað hagnað sinn með því að leigja helminginn af kvótanum og leigja jafnvel skipin með. En þeir gerðu það ekki og maður spyr sig: Af hverju gerðu þeir það ekki? Það hefði verið skynsamlegt.

Þarna koma til mjög dularfull öfl, frú forseti, sem ég hef aldrei getað skilið. Í fyrsta lagi eru ákveðnar félagslegar hömlur á stjórnun sjávarútvegsfyrirtækja. Þau geta eiginlega aldrei hegðað sér skynsamlega því að það er horft gagnrýnum augum á allt sem þau gera. Þetta er ekki eðlilegur markaður. Þess vegna er ekki eins mikið selt af leigukvóta og ella.

Svo gæti líka verið, frú forseti, að þetta sé hreinlega samráð, samráð sjávarútvegsfyrirtækja að halda uppi verði á leigukvóta, vegna þess að þegar lítið er selt af leigukvóta hækkar verðið að óbreyttri eftirspurn. Það getur því verið, eða ég hef enga aðra skýringu á því af hverju kvótinn var ekki leigður út og hefur ekki verið leigður út en þá að menn haldi uppi verði á leigukvótanum til að minnka samkeppni nýliða inn á markaðinn og til að halda uppi verði á varanlega kvótanum því að leigukvótinn er ekkert annað en ávöxtun á varanlega kvótanum. Ef leigukvótinn verður mjög ódýr lækkar verðið á varanlega kvótanum líka í kjölfarið og þá hverfur veðandlag skulda fyrirtækjanna. Það er því eitthvað skrýtið í gangi með markaðssetningu á núverandi fiskveiðikerfi.

Ég ætla ekki að ræða mikið meira um þetta því að ég þarf að fara að snúa mér að breytingartillögum sem hér hafa verið lagðar fram.

Ég gat um það áðan, frú forseti, að fyrir liggur breytingartillaga við frumvarpið um að 1. málsliður 7. gr. orðist svo:

„Almennt veiðigjald skal vera 99 kr. á hvert þorskígildiskíló …“

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar var þetta 8 kr. Hér er gert ráð fyrir að það verði 99 kr. Ég held að þetta sé engin prentvilla. Í breytingartillögum stjórnarmeirihlutans í hv. nefnd var lagt til að þetta almenna veiðigjald yrði 9,50 kr. Hv. þm. Þór Saari, sem er hagfræðingur, tífaldar það verð. Ég hef ekki fengið neina einustu skýringu á því hvað er á bak við þessa tillögu. Mér finnst, frú forseti, að menn eigi ekki að komast upp með það eða þingið eigi ekki að láta bjóða sér það að ekki sé lögð fram skýring á því hvað það þýði að taka 45 milljarða fast verð af útgerðinni.

Hér kemur einmitt formaður nefndarinnar. Hann getur kannski útskýrt fyrir mér og öðrum hvað þessi tillaga frá hv. þm. Þór Saari þýðir eiginlega, að hækka almenna gjaldið upp í 99 kr. á hvert þorskígildiskíló. Hvað mundi það þýða fyrir útgerðina að borga 45 milljarða fast á hverju ári áður en hitt gjaldið er lagt á, sem kæmi þá til viðbótar? Ég sé ekki betur en að það þýddi að sjávarútvegsfyrirtækin færu strax á hausinn. Það getur vel verið að það sé tilgangurinn með þessari breytingartillögu en þá þarf það að koma fram að menn ætli að setja öll sjávarútvegsfyrirtæki á hausinn eða Hreyfingin eða þessi hv. þingmaður.

Síðan eru breytingartillögur sem ég ætla ekki að gefa mjög mikið vægi. Það eru breytingartillögur frá hv. þm. Atla Gíslasyni og hv. þm. Jóni Bjarnasyni um hvernig eigi að ráðstafa veiðigjöldunum. Þar stendur að 50% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skuli renna í ríkissjóð. Gott og blessað, þá geta þau farið í framkvæmdaáætlunina þar sem ríkisstjórnin er búin að ráðstafa þessum peningum í að búa til jafnmikla atvinnu og hún minnkar hjá útgerðarfyrirtækjunum, væntanlega þannig að nettó haldist mannfjöldinn eða atvinnutækifærin. Síðan segja þeir að 40% tekna af veiðigjöldum skuli renna til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem skip er skráð. Nú veit ég ekki hvað það þýðir. Sennilega þarf að skrá skip í sveitarfélagi þar sem er höfn en þó er ég ekki alveg viss um það. En það er ljóst að mörg sveitarfélög fá aldrei neinar tekjur af þessu, t.d. Hveragerði, Vík í Mýrdal eða önnur slík. — Reyndar kom ég inn á það fyrr í kvöld og kannski ég bæti því við núna að Vík í Mýrdal hefur engar þekktar auðlindir, hvorki hita, fallorku né fiskveiðiheimildir, bara fólk og tún. Ég kom nefnilega inn á það að þar er mikið af góðu grasi og það getur vel verið að einhverjir sem fara offari í auðlindahugsuninni vilji skattleggja það líka. — Síðan eiga 10% teknanna að renna til rannsóknarsjóða til að auka verðmæti sjávarútvegs, sjávarfangs. Þetta er sem sagt meiningin frá hv. þingmönnum Atla Gíslasyni og Jóni Bjarnasyni. Mér finnst ástæða til að nefna þær breytingartillögur sem hér eru.

Ég var ekki búinn að klára ágætt nefndarálit frá meiri hluta hv. atvinnuveganefndar sem undir rita hv. þingmenn Kristján L. Möller, formaður, Björn Valur Gíslason, framsögumaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Ólína Þorvarðardóttir, með fyrirvara. Þau hafa öll rætt þetta mál. Ég var þangað kominn í því máli að ég var að lesa um rentuna og það sem Daði Már Kristófersson og fleiri hafa bent á um aðferðafræðina. Svo kom einnig fram að fiskur „sem veiddur er af erlendum skipum en er keyptur til vinnslu hér á landi“ — einn umsagnaraðili benti á það og sýnir það hvað umræðan og umsagnir hafa mikið að segja því að það er tekið tillit til þess í breytingartillögum meiri hlutans að fiskur sem veiddur er af erlendum aðilum og seldur til landsins komi til frádráttar, hann er væntanlega ekki auðlind íslenskrar þjóðar.

Á síðu 9–13 í greinargerð meiri hlutans er töluvert flókinn texti. Ég veit ekki hvort ég eigi að leggja í að lesa hann, með leyfi forseta:

„Sú gagnrýni hefur komið fram að misræmi felist í reiknaðri ávöxtun á verðmæti rekstrarfjármuna milli veiða og vinnslu þar sem lagt sé til að verðmæti skipa fylgi vátryggingarverði þeirra en aðrir rekstrarfjármunir, sem að stærstum hluta tilheyra fiskvinnslu, séu metnir á stofnverði. Að mati meiri hlutans er framangreind athugasemd réttmæt. Þó er að hluta tekið tillit til hennar í frumvarpinu nú þegar með því að lagt er til að ávöxtunarkrafa í fiskvinnslu verði hærri (10%) en í fiskveiðunum (8%) m.a. í ljósi þess að meiri óvissa ríkir um verðmat eigna fiskvinnslunnar.“

Þetta er ekki auðskilið en ég geri ráð fyrir því að nefndin hafi sett sig mjög vel inn í þetta. Hún leysir þetta því að hún gerir ráð fyrir því í ljósi þeirra breytinga sem meiri hlutinn hefur lagt til. Nú les ég aftur, frú forseti:

„Í ljósi þeirra breytinga sem meiri hlutinn hefur lagt til að verði gerðar á útreikningi rekstrarkostnaðar er aftur á móti eðlilegt að ávöxtunarkrafan sé sú sama og miðað er við í fiskveiðum.“ — Það er sem sagt lagt til að þetta sé 8%.

Það var einmitt þetta sem ég ræddi, frú forseti, við hæstv. sjávarútvegsráðherra, að við á hinu háa Alþingi erum farin að ræða um að ákvarða ávöxtunarkröfu í atvinnugreininni. Þá komum við inn á það sem ég ræddi hér fyrr í kvöld, um verðlagningu og verðmyndun á brauði sem flestir treysta markaðnum fyrir en hér er markaðnum greinilega ekki treyst fyrir neinu. Þykir mér það undarlegt því að ég hef trú á því, frú forseti að um 80% þingmanna hafi trú á markaðnum. Ég held að hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilji samkeppniseftirlit og samkeppni og trúi því að markaður með samkeppni búi til lægsta mögulega verðið. Það er trú flestra á Vesturlöndum og víðar um heim, í Japan og víðar, að markaðurinn sjái til þess. En hér er gengið svo langt að Alþingi Íslendinga ætlar að fara að ákvarða ávöxtunarkröfu í sjávarútvegi.

Síðan er talað um sveiflur í rentu og þar stendur, með leyfi forseta:

„Voru færð rök fyrir því að sjá megi fyrir að álagning sérstaks veiðigjalds geti orðið meiri til lengri tíma litið en lagt er upp með í frumvarpinu. Þó bendir meiri hlutinn á að frumvarpið gerir ráð fyrir að útgerðarfyrirtæki haldi á hverjum tíma eftir 30% rentunnar auk þess sem ávöxtun rekstrarfjármuna er ríflega áætluð og því ekki mjög líklegt að samþykkt frumvarpsins leiði til gjaldlagningar neikvæðrar rentu.“

Það er sem sagt rætt um neikvæða rentu og hvað gerist þá. Mér finnst að menn þurfi að ræða þetta. Þegar vel gengur í uppsjávarveiðum og öðrum greinum sjávarútvegs er allt skattað burt 70% og útgerðarfyrirtækin halda 30% eftir. Svo þegar illa gengur er fasta veiðigjaldið að sjálfsögðu borgað en þá er engin fita eftir til að halda lífi í útgerðinni og þola mögru árin. Þá gerist það nefnilega að sífellt fleiri og sennilega mjög stór hluti útgerðarinnar fer á hausinn. Hvað skyldi þá gerast þá, frú forseti? Fiskurinn verður auðvitað veiddur eftir sem áður. Þá kemur ríkisútgerð. Ég er nærri viss um að annaðhvort tækju ríkisbankarnir yfir viðkomandi fyrirtæki eða ríkisvaldið sjálft til að halda veiðunum áfram. Það er því ekkert skrýtið að margir þingmenn hafi sagt að þessi frumvörp bæði, og þá sérstaklega hitt frumvarpið sem við ræðum ekki, sem nefndin er enn að höndla með, muni leiða til ríkisútgerðar, Ríkisútgerðar Íslands ohf. Ég man þá tíð að hér á landi voru bæjarútgerðir o.s.frv. og eitt einkenni á þeim rekstri öllum var stöðugt tap og stöðugt var verið að setja peninga úr sveitarfélögum í reksturinn.

Ég ætlaði að fara meira í gegnum þetta nefndarálit stjórnarmeirihlutans í hv. atvinnuveganefnd en mér gefst ekki tími til þess því að ég ætla að ræða núna um það sem ég nefndi í upphafi, þ.e. markmiðið að koma arðinum frá auðlindinni til þjóðarinnar og þá er ég ekki að tala um ríkið. Ég lít svo á að þjóðin séu íbúar landsins og hv. þingmenn verða að fara að skoða hvernig við komum þessari auðlind til íbúa landsins og aukum öryggi útgerðarinnar og aukum framsalsfrelsið.

Nú er víst öll útgerð meira og minna bundin við höfn. Af hverju skyldi það nú vera? Það er vegna þess að menn eru eitthvað óhressir með þau frumvörp sem við erum að ræða hérna. Þetta er ekki í fyrsta skipti, svona var þetta líka í fyrra og árið þar áður. Það hafa verið endalausar árásir á útgerðina. Hvað skyldi þetta þýða í ávöxtunarkröfu þeirra sem vilja lána til útgerðarinnar og þeirra sem vilja fjárfesta í útgerð að vita að það er stöðugt verið að ráðast á útgerðina? Hún býr nánast stöðugt við það ástand að sigla í land. Það kostar mjög mikið og það kostar þjóðarbúið mjög mikið. Þeir sem lána útgerðinni verða að krefjast hárra vaxta og þeir sem fjárfesta í útgerð þurfa krefjast mikils og hás arðs.

Ég hef flutt hérna frumvarp sem leysir þennan vanda. Frumvarpið dreifir kvótanum á íbúa landsins, sem ég tel vera svona nokkurn veginn þjóð þó að ég taki mér sjaldan orðið þjóð í munn vegna þess að þeir tala mest um þjóðareign og þjóðarsátt og annað slíkt sem eru í einræðisríkjum — ég minni á Sovétríkin, Hitler og fleiri. Mitt frumvarp gengur út á það að dreifa fiskveiðiheimildunum til íbúa landsins og gera þær algjörlega frjálsar. Hlutdeildin er óháð veiðum eða nokkrum sköpuðum hlut, menn eigi bara rétt á því að veiða 1% af til dæmis öllum afla sem veiddur verður árið 2018. (Gripið fram í: Styður Sjálfstæðisflokkurinn þetta?) — Ég er ekki algjörlega háður Sjálfstæðisflokknum, frú forseti, í framhaldi af þessu frammíkalli. — Þetta mundi þýða algjöra markaðsvæðingu kerfisins og öryggi. Ég hugsa að kvóti útgerðarmanna sem á að hverfa á 40 árum, 2,5% afskrifað á ári, yrði miklu meira virði með þeirri afskrift en því öryggi sem boðið er upp á og með þeirri markaðssetningu og því algjörlega frjálsa framsali sem eykur arðsemina. Ég hugsa að útgerðarmenn yrðu ánægðari og ríkari með slíka breytingu en þau ósköp sem við erum að ræða og þá sovétmennsku sem svífur hér yfir vötnum.