140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að það sé rétt hjá hv. þingmanni að í flestum flokkum sé fólk sem trúi á virkni markaðarins. En ég hafði skilið tillögur hv. þingmanns um fiskveiðistjórnarkerfi, ef kerfi skyldi kalla vegna þess að það byggði fyrst og fremst á frjálsræði, þannig að hinn frjálsi markaður ætti að vera allsráðandi. Ég taldi það vera nokkurn veginn skilgreininguna á frjálshyggjunni. Það væri reyndar áhugavert að heyra skilgreiningu hv. þingmanns á frjálshyggju.

Hv. þingmaður benti í ræðu sinni á atriði sem er mjög mikilvægt og það var — af því að menn eru farnir að tala um hvað sé eðlileg ávöxtunarkrafa í sjávarútvegi — hversu dýr óvissan væri fyrir sjávarútveginn. Þar er ég alveg sammála honum. Það er mjög dýrt fyrir hverja atvinnugrein ef hún býr við óvissu. Við sjáum það til dæmis núna að menn eru farnir að reikna með sérstöku pólitísku óvissuálagi þegar þeir meta hugsanlegar fjárfestingar á Íslandi vegna þess hversu pólitísk óvissa er orðin mikil hér.

Óvissa er eitt af því sem við ættum að stefna að að draga úr með fiskveiðistjórnarkerfinu. Það væri hins vegar held ég ekki gert með því til að mynda að ríkið á hverju ári héldi uppboð á öllum kvóta. Það er dálítið frjálshyggjuleg kenning sem helst hefur heyrst frá nokkrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og mér hefur reyndar þótt jafnvel til hægri við hv. þm. Pétur H. Blöndal. Það fyrirkomulag held ég að væri ekki til þess fallið að skapa stöðugleika í greininni og gera fyrirtækjunum kleift að hámarka verðmæti auðlindarinnar.