140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér entist ekki ræðan áðan til að fara ofan í ávöxtunarkröfuna og áhættuna, sem hv. þingmaður spurði hér að. Það er hárrétt hjá honum, óvissan er dýr fyrir þjóðfélagið, fyrir fyrirtæki og fyrir alla. Hún kemur fram í hærra álagi á vexti og hún kemur fram í því að fjárfestar krefjast hærri arðs. Hún er mjög dýr fyrir sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi og alveg sérstaklega þegar ráðist er á þau reglulega á hverju vori eins og gert hefur verið undanfarið.

Arðurinn af auðlindinni byggir á fiskverði. Fiskverð fer hækkandi vegna eftirspurnar á heimsmarkaði eins og ég hef getið um þannig að fiskverð mun væntanlega hækka meira en til dæmis neysluverðsvísitalan. Hún hækkar að jafnaði meira til 10, 20, 30 ára en aðrar vísitölur að öllu jöfnu, þannig að fjárfesting í kvóta eða aflahlutdeild sem væri örugg og menn treystu ætti að bera mjög lága vexti, jafnvel 1%, jafnvel neikvæða vexti, af því að hún mun hækka meira en vísitalan.

Í dag horfum við á það að veiðiheimildir eða leigukvótinn er um 10% af varanlegu verði þannig að ávöxtunarkrafan í dag á þeim litla markaði sem er til, ég vil benda á það að hann er mjög lágur, er um 10%. Það að hún lækki svona mikið, úr 10% niður í 1 til 2%, mundi gera að verkum að verðmæti eignar útgerðarmanna yrði miklu meira þrátt fyrir afskriftir í mínu kerfi en núverandi.