140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður eyddi töluverðum tíma af ræðu sinni í að fjalla um ríkisútgerð eða það sem ég held að hann hafi hreinlega kallað sovétisma. Maður sá fyrir sér að hér yrði sett á fót stofnun eða opinbert fyrirtæki sem héti RÚV, sem stæði fyrir Ríkisútgerð vinstri manna, sem hv. þingmaður gæti þá haft horn í síðu ef hann fjallaði um það.

Mér heyrðist hv. þingmaður einnig nefna samvinnuformið í ræðu sinni, mér hefur kannski misheyrst, það getur verið. Samvinnurekstrarformið er mjög heppilegt til ýmissa hluta, þar á meðal að reka fyrirtæki eins og við höfum séð ágætlega í sjávarútvegi, ekki síst á Íslandi þar sem eitt af öflugustu fyrirtækjum í sjávarútvegi er einmitt rekið af samvinnufyrirtæki. Víða um heim er, ætli það sé ekki um milljarður manna skráður í samvinnufélög og samvinnuhreyfingar í alls konar rekstri, þar á meðal fjármálastarfsemi og ýmsu öðru. Það rekstrarfyrirkomulag er því ekki síðra en hvað annað til að reka sjávarútvegsfyrirtæki jafnt sem fjármálastarfsemi og annað.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það er ekki glæsileg framtíðarsýn að horfa til þess að hér verði sveitarfélög á ný, eða ríkið, í einhvers konar útgerðarstarfsemi eða annist umsýslu með aflaheimildir. Þar af leiðandi geri ég miklar athugasemdir við hitt frumvarpið, ekki veiðigjaldafrumvarpið varðandi þetta. Veiðigjaldið er hins vegar hugsað sem skattur sem leggst á suma, ekki aðra, skattur sem leggst á sum fyrirtæki og hefur þar af leiðandi áhrif á tekjur þeirra og væntanlega tekjur þeirra sem þar vinna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í hvort það sé ekki áhyggjuefni, fyrir utan það sem ég nefndi með rekstrarfyrirkomulagið, að fyrirhugað er að taka eina atvinnugrein út fyrir sviga og þá þær stéttir sem hafa atvinnu af þeirri atvinnugrein (Forseti hringir.) og skattleggja sérstaklega.