140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þessi frumvörp hafa hlotið mjög neikvæða umfjöllun í umsögnum og menn tala opinskátt um að mörg sjávarútvegsfyrirtæki muni fara á hausinn, sem þýðir að starfsmenn viðkomandi sjávarútvegsfyrirtækja verði atvinnulausir. Þetta þurfa menn að horfast í augu við.

Svo ætlar ríkisstjórnin að nota peningana af þessu til að setja í gang atvinnusköpun. Það er því bara verið að hræra í pottinum, enda verður engin ný fjármunamyndun í kerfinu þegar einn er skattlagður til að setja fjármunina í eitthvað annað. Þá hræra menn í pottinum og væntanlega verða jafnmörg störf eftir sem áður eða nokkurn veginn.

Varðandi þá hugsun að bankarnir eignist fyrirtækin gerist það hugsanlega hraðar en það sem ég spáði hérna áðan um að skatturinn mundi hleypa fyrirtækjunum í fangið á ríkinu þegar fyrirtækin gætu ekki borgað veiðigjaldið sem er forgangsveð og ríkið mundi því eignast skipin. Það getur alveg eins gerst eins og hv. þingmaður bendir á og kom fram í umsögnum fjármálafyrirtækjanna að bankarnir eignist skipin. Þá förum við bráðum að sjá bankaútgerð því að eitthvað verða þeir að gera við skipin, þeim fylgir kvóti og heimildir og annað slíkt, þannig að við munum væntanlega sjá bankaútgerð við hliðina á ríkisútgerðinni.