140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við tökumst á um sjávarútvegsmál í þinginu þessa dagana, stór og mikil mál, og sýnist sitt hverjum um stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér fannst ummæli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og hv. þm. Skúla Helgasonar mjög ódrengileg og ómakleg í gær þegar þau fóru upp í ræðustól Alþingis og sökuðu útgerðarmenn um lögbrot sem er algerlega órökstutt. Ég get reyndar ekki séð hvernig það getur talist lögbrot að boða fólk á vinnutíma til fundar við stjórnendur fyrirtækja úti um allt land á fullum launum. Ég held að við ættum að geyma svona gífuryrði eins og að atvinnurekendum sé skítsama um starfsfólk sitt og að verið sé að nota það sem mannlega lifandi skildi í þessari baráttu. Það er ekki sæmandi Alþingi.

Það er annað stórt mál, virðulegi forseti, sem mig langar aðeins að koma inn á og það er rammaáætlun. Rammaáætlun hefur verið kynnt sem eitt af stóru málum ríkisstjórnarinnar. Nú er staðan þannig í hv. atvinnuveganefnd að rammaáætlun hefur ekki verið tekin á dagskrá þar í marga daga. Þrátt fyrir að tekist sé á um það hvernig megi lenda sjávarútvegsmálunum eru engir formlegir fundir í nefndinni þessa dagana og vinna við rammaáætlun liggur niðri. Það vekur óneitanlega upp þá spurningu, virðulegi forseti, hvort það sé einhver alvara með að keyra rammaáætlun í gegnum þingið. Það er kvartað hér yfir því að stjórnarandstaðan sé í einhvers konar málþófi á þingi en þetta ítrekar og sýnir enn frekar þá stöðu sem er innan ríkisstjórnarflokkanna, þá óeiningu sem er þar (Forseti hringir.) um að koma stórum málum á dagskrá þannig að hægt sé að takast á um þau í málefnalegri umræðu á Alþingi. (Gripið fram í: Þau komast ekki að í málþófi.)