140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem félagar mínir, hv. þingmenn, hafa sagt um sjávarútvegsmálin og vinnubrögðin þar. Við megum hins vegar ekki gleyma því að hér eru fleiri mál undir. Við höfum horft á það að áherslur ríkisstjórnarinnar hafa að stórum hluta gengið út á það að auka eftirlit með Íslendingum, auka eftirlit með venjulegum Íslendingum.

Það vantar ekki að þar eru til nægilegir fjármunir, menn sjá til dæmis að búið er að tvöfalda framlög til skattrannsókna. Við sjáum það líka að hver einasti Íslendingur má búa við það að fylgst sé með öllum viðskiptum hans við útlönd, sama hversu smá þau eru. Það er fylgst með því öllu í Seðlabankanum.

Og hverjir eiga að hafa eftirlit með eftirlitinu? Það er Alþingi. Hér er sérstök nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem á til dæmis að skoða þá hluti sem menn telja að séu skoðunarverðir. Telja þingmenn að við höfum sinnt því hlutverki?

Nú er til dæmis til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sérstakt mál, út af Byr og SpKef, sem kom inn síðasta haust, einfaldlega vegna þess að þar voru brotin lög, og enginn hefur mótmælt því.

Við erum líka að tala um það, virðulegi forseti, að nú á að auka heimildir Seðlabankans enn frekar. Við höfum séð það í fjölmiðlum að seðlabankastjóri hefur farið fram hjá kínamúrum. Við höfum séð að forstöðumaður gjaldeyriseftirlitsins hjá Seðlabankanum er báðum megin borðsins, því að bæði hefur hann ráðlagt í máli og síðan ákært í sömu viðskiptum.

Ætlum við að láta eins og ekkert sé? Ætla hv. nefndir þingsins, (Forseti hringir.) meiri hluti þeirra, ekkert að gera í þessu? Á ekki að skoða þetta? Munum við afgreiða (Forseti hringir.) þessi mál, eins og varðandi gjaldeyriseftirlitið, á færibandi án þess að líta neitt á það? Ef svo er, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) þá er það vanræksla.