140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vantar að sjálfsögðu að meta til hlítar hver áhrifin verða á aðra starfsemi, ég held að það sé kannski það sem hv. þingmaður var að fiska eftir. Það er ljóst að ef það verður samdráttur í getu fyrirtækjanna til þess að kaupa þjónustu eða fjárfesta mun það hafa víðtæk áhrif. Og það kann ef til vill að vera að þau áhrif verði jafnvel meiri en það sem þetta blessaða veiðigjald á að skila. Það er að sjálfsögðu eitthvað sem mun hreinlega fara í hring og bíta í skottið á sér, ef það má orða þannig.

Ég nefndi áðan að fyrirtækin eru að setja beint og óbeint mikla fjármuni í þróunarverkefni og það er best að hafa það á hreinu að sum veita fyrst og fremst húsnæði eða aðstöðu undir ýmiss konar nýsköpun. Það eru ýmiss konar þróunarverkefni í gangi sem skila sér aftur út í samfélagið eða til fyrirtækja sem framleiða svo úr því einhver tæki og tól sem nýtast í greininni. Ég hef miklar áhyggjur af því að þetta allt muni dragast saman.

Ég hef líka áhyggjur af því að þegar fyrirtæki þurfa að grípa til þess að fækka skipum, fækka áhöfnum, að þá dregst að sjálfsögðu saman þörfin fyrir þjónustu hjá þessum aðilum. — Frú forseti, þetta er mjög skemmtileg klukka því að hún telur upp, en ég tala þá bara áfram. (Gripið fram í.) Það er ekki að spyrja að því, hæstv. utanríkisráðherra.

Svarið er að ég er sammála því að þetta geti haft veruleg áhrif annars staðar og jafnvel dregið úr tekjum ríkisins þegar upp er staðið.