140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:32]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu og málefnalega. Það háttar svo til um þessar mundir að einstætt náttúruundur á sér stað sem er þverganga Venusar sem gerist með rúmlega 100 ára millibili. Það er dálítið fróðlegt að bera saman þvergöngu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum við þvergöngu Venusar. Munurinn á þessum tveimur náttúruundrum er í rauninni 100 ár í tíma. Við fáum hins vegar þvergöngu ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum á hverju ári. Þetta er þriðja tilraunin sem ríkisstjórnin gerir til þess að bregða birtu á þann möguleika og þau tækifæri sem búa í íslenskum sjávarútvegi. Það er hins vegar sameiginlegt með náttúrufyrirbærinu þvergöngu Venusar og framgöngu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum að almenningur horfir í forundran á framgöngu hvors tveggja, reikistjörnunnar og ríkisstjórnarinnar

Í þeirri viðleitni sinni að standa ekki svona ein og berstrípuð ber nokkuð á því hjá ríkisstjórninni að reyna að tengja framgöngu sína við aðra stjórnmálaflokka og afla þessum vonlausu hugmyndum sínum fylgis. Meðal annars létu forustumenn beggja stjórnarflokkanna þau orð frá sér fara þegar þeir kynntu frumvörpin í mars að margt í þessum frumvörpum ætti, eins og þar var tekið til orða, að höfða til Framsóknarflokksins. Mér þætti vænt um að heyra frá hv. þingmanni samanburð á hugmyndum (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins og þeim fyrirætlunum sem ríkisstjórnin boðar almenningi (Forseti hringir.) á Íslandi með frumvörpum sínum.