140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að þau frumvörp sem liggja frammi af hálfu ríkisstjórnarinnar, og annað er reyndar enn þá inni í nefnd, þurfa að taka verulegum breytingum. Í fyrsta lagi varðandi veiðigjaldafrumvarpið er veiðigjaldið einfaldlega allt of hátt, ekki bara að okkar mati framsóknarmanna, það er of hátt að mati þeirra sérfræðinga sem fjallað hafa um málið.

Í hinu frumvarpinu, af því að hv. þingmaður fór að tala um hvað forustumenn stjórnarflokkanna hefðu sagt á sínum tíma, eru vitanlega atriði sem eru á engan hátt samrýmanleg stefnu okkar, t.d. 3% fyrningin og það er engin eðlileg skýring á því af hverju framsal eftir 20 ár eigi ekki að vera til staðar. Þessi 40:60% skipting í pottana er ekki í neinu samræmi við það sem við höfum lagt til og er í rauninni afar sérkennileg ráðstöfun verð ég að segja. Það eru því margir hlutir sem eru öðruvísi.

Í hinu frumvarpinu er líka þessi svokallaði leiguliðapottur sem stjórnvöld ætla sér að koma á fót og við gerum miklar (Forseti hringir.) athugasemdir við þann hluta frumvarpsins, þannig að það liggi fyrir.