140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt átt hér kollgátuna. Við erum einhvern veginn stödd í umræðum um veiðigjöldin þar sem við hefðum þurft að vera stödd fyrir mörgum mánuðum. Við erum enn að ræða um forsendurnar, við erum enn að fara yfir hvort örugglega sé rétt reiknað og við erum enn að velta því fyrir okkur hvort menn hafi fundið þessa frægu auðlindarentu eða hvort menn hafi hitt á hana.

Meiri hlutinn viðurkennir það á vissan hátt að hann sé ekki kominn neitt áfram í þessu máli, hann leggur fram breytingartillögu sem felur í sér að vísa málinu inn í framtíðina, í þessa veiðigjaldsnefnd. Þá vakna auðvitað þær spurningar sem hv. þm. Ólöf Nordal spurði að hér áðan um stjórnarskrána, um valdaframsalið o.s.frv.

Er hv. þingmaður ekki sammála mér um það að sú umræða sem nú fer fram hefði átt að fara fram fyrir mörgum mánuðum? Væri því ekki skynsamlegast í því ljósi að þessari umræðu yrði frestað og menn reyndu að læra af því sem þegar hefði verið gert og legðu síðan fram annað frumvarp sem væri þá fullbúið og næði utan um (Forseti hringir.) það sem vilji manna stæði til?