140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (frh.):

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

(Forseti (SIJ): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Ég vil byrja á að fagna því hve margir eru hér í þingsalnum þegar ég hef ræðu mína, og hæstv. forsætisráðherra er þeirra á meðal. Það eru ólíkt fleiri en voru í salnum þegar ég þurfti að gera hlé á máli mínu rétt fyrir kl. 13.00. Ég lít þannig á að spurst hafi út að fyrri hluti ræðunnar hafi verið svo góður að fjöldi fólks hefur nú þyrpst í þingsal til að heyra lyktir hennar.

Því miður fyrir hæstv. utanríkisráðherra get ég ekki flutt aftur þann hluta sem ég flutti áðan en ég vek athygli á því að hið dásamlega alnet mun geta leyst úr því fyrir hæstv. utanríkisráðherra, hann getur farið á netið og fylgst með ræðu minni. Ef hann treystir sér ekki til þess vegna anna núna í dag verður hún líka örugglega birt á skriflegu formi síðar og ég gæti meira að segja af gæsku minni gefið honum afrit af ræðunni áritaða. (Utanrrh.: Það er þegið.) Ég tek þá hæstv. utanríkisráðherra á orðinu.

Eitt af því sem ég var að fara yfir áðan voru ýmsar bábiljur sem ég tel að hafi komið fram í þessari umræðu sem hafa lotið að veiðigjaldinu og þeirri umræðu sem fram hefur farið um sjávarútvegsmálin á síðustu vikum. Ég hef bent á hvernig mjög margt af þessu stenst ekki frekari skoðun og ég ætla ekki að endurtaka það hér og nú.

Ég vil nefna það til viðbótar við það sem ég hef áður sagt að mér gremst mjög hvernig menn hafa í þessari umræðu talað niður til starfsfólks í sjávarútvegi. Menn hafa talað um að starfsfólkið hafi verið gert að mannlegum skjöldum, hafa talað um þetta á þeim nótum að það er eins og það hafi ekki frjálsan vilja, kunni ekki að hafa skoðanir á þessu máli og eingöngu látið stjórnast af vinnuveitendum sínum og yfirmönnum í fyrirtækjunum. Þetta finnst mér mjög ómaklegt og raunar fullkomin ómagaorð að tala þannig til starfsfólks í íslenskum sjávarútvegi. Að sjálfsögðu veit starfsfólk í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum vel hvað það syngur, veit vel hvað hér er um að ræða fyrir starfsöryggi þess, möguleika þess á kjarabótum, möguleika á því að sjá framtíð sinni vel borgið í starfi í sjávarútvegsfyrirtækjunum.

Ég ætla að vitna í æskuvin minn, skipstjórann á Kleifaberginu, Víði Jónsson, sem sagði í viðtali við Morgunblaðið nú í morgun, þegar hann var að fara yfir fundinn sem var haldinn í starfsstöð Brims í Reykjavík þar sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talaði og varði sitt mál. Skipstjórinn sagði þar:

„Auðvitað er það þannig að við höfum fullt eins mikið vit á þessum málum og ráðherrann, með fullri virðingu fyrir honum. Hann kýs hins vegar að beita hér mælskubrögðum. Við erum sérfræðingar í sjávarútvegsmálum, við erum hins vegar ekki sérfræðingar í því að halda ræður á torgum.“

Það er kannski þar sem ber í milli. Við sem erum þingmenn og erum vön því að halda ræður getum kannski á fundum, þar sem við stöndum frammi fyrir hópi fólks, talað á þann veg að fólk veigrar sér við að mæta okkur á þeim vettvangi en skoðanir þess eiga engu að síður rétt á sér. Og við höfum einfaldlega séð það nú á undanförnum vikum að fjöldi fólks út um allt land, starfsfólk þessara fyrirtækja, starfsfólk fyrirtækja sem eiga allt sitt undir því að sjávarútvegurinn gangi vel, hefur lögmætar ástæður fyrir því að hafa miklar áhyggjur. Það hefur ekki bara komið fram í máli þessa fólks þegar maður hittir það á vinnustöðum, og það hefur ekki bara komið fram í því að það hefur tjáð sig með ýmsum hætti í fjölmiðlum. Það hefur líka komið fram í því að hagsmunasamtök þessa fólks, t.d. hagsmunasamtök sjómanna, hafa lagst mjög hart gegn þessum frumvörpum og haft uppi mikla gagnrýni á þau.

Ég get líka nefnt Alþýðusamband Íslands — innan vébanda þess er til dæmis Starfsgreinasamband Íslands sem landverkafólk í fiskvinnslu er í — sem hefur gert alvarlegar athugasemdir við frumvörpin, ekki síst frumvarpið sem lýtur að stjórn fiskveiða en hefur líka bent á miklar veilur í frumvarpinu um veiðigjöldin sem við ræðum hér. Úr því að ég er að nefna Alþýðusamband Íslands sérstaklega — ætlaði reyndar að koma að því í miklu lengra máli en verð að bíða með það þar til síðar, í annarri ræðu — þá hefur það bent á að forsendan fyrir því að þau veiðigjöld, sem nú er verið að stefna á, nái að innheimtast er sú að hér verði áfram um að ræða álíka lágt gengi og nú er. Þegar við skoðum annars vegar töflurnar í frumvarpinu sjálfu og hins vegar þá töflu sem lögð hefur verið fram í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar þá er forsendan í töfluútreikningum sú að hér verði áfram mjög lágt raungengi, svipað og við búum við í dag.

Og hvað segir Alþýðusamband Íslands um þetta, með leyfi virðulegs forseta:

„Í umfjöllun um afstöðu Alþýðusambandsins til sérstaka veiðigjaldsins mun þessi staða verða höfð til hliðsjónar því ef útfærsla gjaldsins kemur í veg fyrir þessa þróun“ — þ.e. þróun til hækkunar og styrkingar genginu — „væri verið að leggja þetta gjald á almenning og aðrar atvinnugreinar en ekki sjávarútveginn.“

Það er með öðrum orðum ljóst, eins og Alþýðusamband Íslands bendir á, að forsendan fyrir þessu gjaldi, og þeirri gjaldtöku sem ætlunin er að fara af stað með, er sú að gengið verði áfram lágt. Það er framtíðarsýnin sem ríkisstjórnin boðar okkur með þessu frumvarpi.