140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það var leitt að hann skyldi þurfa að skipta máli sínu í tvennt og gera hlé á annars ágætri ræðu sinni um eittleytið í dag.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að tvennu hér í fyrra andsvari. Í fyrsta lagi spyr ég um skiptingu veiðigjaldsins, hvort hv. þingmaður telji að á því frumvarpi sem hér er mælt fyrir, þar sem verið er að leggja sérstakan skatt á landsbyggðina, þurfi að gera breytingar í þá átt að við látum þá meiri fjármuni renna aftur til sjávarbyggðanna, hluta veiðigjaldsins, til að styðja við atvinnuuppbyggingu þar og jafnvel að leiðrétta mismun á lífsskilyrðum. Við höfum til að mynda oft rætt það hér að margar sjávarbyggðir greiða mun hærra gjald vegna raforkukostnaðar og fleira mætti nefna. Telur hv. þingmaður að þessi skattur á landsbyggðina muni skila sér í nægilega miklum mæli til baka til sjávarbyggðanna?

Í annan stað vil ég spyrja hv. þingmann út í þau ummæli þingmanna Samfylkingarinnar í þessari umræðu að þeir sem tali gegn þessu frumvarpi séu að gæta einhverra sérhagsmuna, að það séu annarleg sjónarmið og vinnubrögð sem við viðhöfum hér. Mér finnst vegið að manni þegar sagt er að maður sé hér í einhverri sérhagsmunapólitík en ég bendi á að við erum að tala um 35.000 störf sem tengjast íslenskum sjávarútvegi beint eða óbeint. Þykir hv. þingmanni það sæmandi, í ljósi mikilvægis málsins, að við séum sökuð um að við séum að ganga erinda einstakra aðila í samfélaginu til að tryggja sérhagsmuni þeirra?