140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans. Þegar við ræddum breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu síðastliðið vor kom einmitt töluverð andstaða fram, sérstaklega frá nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, gagnvart hugmyndum þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ég mundi raunar vilja tengja þessar áhyggjur vangaveltum hv. þingmanns um það af hverju sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu væru svona slakir og berðust ekki fyrir hagsmunum sínum hvað varðar sjávarútveginn. Það er náttúrlega þannig, sérstaklega hvað varðar Reykjavík, að 75% af opinberu fé sem aflað er er ráðstafað þar þegar aðeins 42% skattteknanna verða til þar. Þetta eru tölur sem koma fram í rannsókn sem Vífill Karlsson vann. Hann bendir líka á að annarri hverri krónu sem aflað er á landsbyggðinni er ráðstafað á þessu svæði. Þeir vita því á grundvelli reynslunnar að þeir munu fá sitt en það vita hins vegar ekki sveitarstjórnarmenn hringinn í kringum landið.

Ég efast ekki um að hv. þingmaður hefur lesið umsögn Vesturbyggðar þar sem bent er á að í kringum 300 milljónir samtals fari af því svæði, ef þetta verður að lögum, en miðað við frumvörpin frá hæstv. ráðherra munu aðeins 3–19 milljónir koma til baka og þá fyrst og fremst í gegnum leigupottinn, leigu á aflaheimildum þar, þannig að menn sjá ekki fram á að neitt af þessu muni skila sér.