140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:11]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi síðasta atriðið tel ég að ef það þarf að úrelda hlýtur það að koma niður á greininni í heild. Reyndar telja sumir að þótt við séum búin að hagræða alveg gríðarlega í greininni og fækka mjög mikið skipum og kaupa ný o.s.frv., séum við samt með yfirgetu í veiðunum.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði um öryggi sjómanna. Sóknardagakerfið sem hér var við lýði gekk út á að sýna kappsemi og allir voru að veiða í samkeppni við hver annan á sama tíma til að ná sem mestu. Svo var bara allt búið og sjoppunni lokað og allir í land. Það þýddi auðvitað að menn voru að veiða í tæpum veðrum og tóku óþarfaáhættu. Menn hafa áhyggjur af þessu til dæmis í strandveiðunum í dag. Þegar menn eru í þessu kerfi taka þeir áhættu. Þeir vilja afla tekna á stuttum tíma, keppa við aðra um sömu auðlindina. Við gátum tryggt öryggi sjómanna mun betur þegar við fórum út úr sóknardagakerfinu í aflamarkskerfið.

Hvað markaðsmálin varðar er alveg rétt að menn gefa þeim ótrúlega lítinn gaum. Við erum með stór og öflug fyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa unnið gríðarlegt markaðsstarf í samkeppni við aðrar þjóðir. Við keppum við fyrirtæki í Noregi, Bretlandi og um allan heim. Við seljum mikið af fiski til Evrópu, til Bandaríkjanna og út um allan heim. Ég veit hvað þetta er allt saman viðkvæmt. Við erum að reyna að umhverfismerkja fisk í samkeppni við aðra o.s.frv.

Ég hef af þeim sökum mjög miklar áhyggjur af því að flotinn er núna í pásu. Þetta getur skaðað viðskiptasambönd okkar. Menn koma sér upp viðskiptasamböndum og þurfa að vera stabílir í því að afhenda vöruna, annars fer kaupandinn og kaupir bara af einhverjum öðrum. Það verður því að (Forseti hringir.) setjast niður og leysa þessa deilu svo flotinn sitji ekki í landi. Við megum ekki eyðileggja viðskiptahagsmuni okkar.