140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég held að þarna sé einmitt um einhvers konar kosningaplagg að ræða og réttlætingu fyrir þessu gjaldi. Í raun er verið að reyna að fá ákveðna þjóðfélagshópa og atvinnugreinar til fylgilags við þessi frumvörp með því að lofa þeim einhverjum dúsum í staðinn. Það er auðvitað afar ósmekklegt að etja atvinnugreinum í landinu saman með þessum hætti og reka fleyg á milli þeirra á þessum forsendum. Þetta á svo sem við fleiri verkefni sem eru talin upp í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Það er til dæmis lofað ákveðnum verkefnum við vegagerð, bráðnauðsynlega vegagerð, gangagerð og hafnargerð þar sem það er hnýtt saman að þessi verkefni geti tæplega orðið að veruleika nema til komi veiðigjald.

Hv. þingmaður vitnaði áðan í gamla ræðu hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Ég gerði það líka í ræðu minni áðan. Það er nú þannig að menn verða að kannast við það sem þeir hafa sagt og þær skoðanir sem þeir hafa haft á málum áður. Ég tek undir að enginn er minni fyrir það að skipta um skoðun ef aðstæður breytast, en menn þurfa þá að gefa skýringar á því af hverju það er. Hæstv. ráðherra hefur svo sem gert það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þessa ræðu og varðandi það hvort þetta er skattur eða veiðigjald eða gjaldtaka. Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Álagning veiðigjalds er einhvers konar brúttóskattur eða veltuskattur. Við höfum verið að hverfa frá því að leggja á veltuskatta. Sem dæmi má nefna að við hentum út aðstöðugjaldinu …“

Svo segir hann í annarri röksemd sinni, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess að fjölmargar atvinnugreinar nýta með einum eða öðrum hætti sameignir þjóðarinnar án þess að því fylgi sérstök skattlagning, er útilokað að leggja (Forseti hringir.) þennan skatt á sjávarútveg eingöngu.“

Er hv. þingmaður ekki sammála mér í því að við eigum að ræða þetta sem hreina skattheimtu á þessa (Forseti hringir.) atvinnugrein en ekki að vera að klæða þetta í einhvern annan búning?