140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemd við fundarstjórn forseta þó að við séum ekki undir þeim lið.

(Forseti (ÁI): Óskar hv. þingmaður eftir því að taka til máls um fundarstjórn forseta eða svara andsvari?)

Það getur vel verið að ég geri það á eftir vegna þess að ég átta mig ekki alveg á …

(Forseti (ÁI): Hv. þingmaður svarar andsvari.)

Já, ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði hér áðan sem skaðar virðingu Alþingis. Það er vonandi enn málfrelsi í þessum ræðustól og hvernig ég haga tíma mínum hér þegar ég svara hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, svo því sé til haga haldið.

Ég tek undir með hv. þingmanni, mér finnst alveg stórundarlegt að fylgjast með athafnaleysi borgaryfirvalda og þeirra sem fara með völdin í Hafnarfirði í jafnmikilvægu máli. Eins og fram hefur komið er þjónustan gagnvart íslenskum sjávarútvegi gríðarlega mikil á höfuðborgarsvæðinu. Það eru væntanlega hundruð eða þúsundir einstaklinga í Reykjavík, í Hafnarfirði, í þessu kragakjördæmi sem við köllum oft svo, sem hafa beint lifibrauð sitt af því að þjónusta sjávarútveginn. Þar erum við kannski ekki síst að tala um hátæknifyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki, sem ríkisstjórnin vill á tyllidögum kenna sig við að hún styðji sérstaklega við.

Ég vil líka benda á áskorun sveitarstjórnarmanna sem birtist í Morgunblaðinu í dag frá 131 sveitarstjórnarmanni og sveitarstjórum vítt og breitt um landið sem tilheyra öllum stjórnmálaflokkum, mér finnst að við þurfum að taka þá áskorun mjög alvarlega. Þar kemur fram að við þurfum einfaldlega að skoða málið betur, það sé allt of illa unnið. Ég tek undir með hv. þingmanni að mér finnst þögn Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðarbæjar alveg hrópandi í ljósi þess hversu mikilvægt það mál er sem við ræðum.