140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er jafnan sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni, en það yndislega við lífið alla jafna er að fólk er alltaf að læra eitthvað nýtt og meðal annars ég í þessum þingsal undir fundarstjórn forseta. Ég kom upp í andsvar áðan við hv. þm. Birki Jón Jónsson og bar upp fyrirspurn, en það var greinilegt að orðaval mitt var þannig að ég var beðin um að gæta orða minna. Ýmis orð hafa verið látin falla í þessum þingsal, ekki síst umliðna daga, t.d. hafa hv. stjórnarþingmenn sagt að útgerðarmönnum sé skítsama um starfsfólk sitt. Mér þætti vænt um ef frú forseti gæti farið nákvæmlega yfir það sem misbauð virðingu þingsins þannig að ég gæti þá haft varann á mér næst þegar ég kem hingað upp í stólinn. Mér þætti vænt um ef hæstv. forseti færi yfir þessi orð.