140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Eins og ég benti á er hér um að ræða 131 einstakling. Ég veit reyndar um mun fleiri sveitarstjórnarmenn sem hefðu viljað vera með á þessari yfirlýsingu og eru efnislega sammála henni. Þetta er fólk sem þekkir mjög vel til í aðstæðum og skilyrðum sveitarfélaga og hvaða áhrif þetta frumvarp gæti haft.

Ég bendi líka á það, af því hæstv. utanríkisráðherra er í salnum og á vafalaust eftir að koma hér upp og ræða þetta mál, enda er hann ábyrgðarmaður þess og afgreiddi það úr ríkisstjórn, (Utanrrh.: Skrifaði það sjálfur.) að undir þessa yfirlýsingu skrifar fjöldinn allur af samfylkingarmönnum, forustumönnum Samfylkingarinnar í bæjarfélögum vítt og breitt um landið. Er það svo að á þetta fólk, fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa undirritað þessa yfirlýsingu, sé ekkert hlustað innan ríkisstjórnarflokkanna? Hvar er sú lýðræðisást og þau samræðustjórnmál sem boðuð voru af hálfu þessara tveggja flokka í aðdraganda síðustu kosninga? Þetta mál sýnir okkur fram á að á fólkið er lítið sem ekkert hlustað og þetta er svo sem ekki fyrsta málið af þeirri tegund.

En ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið við fyrri spurningu minni. En í ljósi þess að við erum að tala hér um hagsmuni sem snerta íslenskt efnahagslíf og bankakerfi, hagsmuni upp á mörg hundruð milljarða króna, vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji, með tilliti til virðingar þingsins, að það væri rétt að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis færi yfir þetta mál. Hv. þingmaður gleymdi að svara þeirri spurningu minni. Að nefndin fengi að fara vel yfir málið á milli 2. og 3. umr. eða jafnvel að koma að málinu upp á nýtt, vegna þess að það hefur skort á að fulltrúar allra flokka hafi fengið að koma að þessari mikilvægu vinnu.