140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vona að ég hafi heimild til þess að byrja ræðu mína þrátt fyrir að ég hafi ekki notið almennrar leiðsagnar frá forseta og í raun fékk ég ekki uppfylltan þann rétt minn að fá að vita hvað það var nákvæmlega sem ég sagði hér áðan sem forseti gerði athugasemd við. Mér bárust ekki þau svör en ég vonast til þess að ég fari ekki gegn virðingu Alþingis með ræðu minni. En ég viðurkenni alveg að hluta til að þegar ég fer yfir þessi gögn verður mér heitt í hamsi við að sjá hvílíka dómadagsdellu við erum að ræða hér. Þegar ég segi dellu þá á ég ekki við að ekki eigi að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu eða ræða um veiðigjöld, heldur hvernig málið hefur verið sett fram af hálfu ríkisstjórnarinnar með því offorsi, því yfirlæti og ýmsu öðru sem henni er tamt og menn vita nákvæmlega hvað á þar við.

Ég fór í fyrstu ræðu minni yfir það að sagan segir okkur að það er síður en svo þannig að menn hafi ekki viljað ræða veiðigjöld eða ræða það að setja ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum okkar í stjórnarskrá. Það skiptir okkur máli þegar við lítum yfir söguna og reynum að skilja aðstæður okkar í dag. Ég verð að segja að þessi ríkisstjórn hefur algjörlega gefist upp við það verkefni að reyna að ná grundvallarsátt um sjávarútveginn, í því prinsippmáli til lengri tíma litið. Ég segi: Það er hægt að ná slíkri sátt milli stjórnmálaflokkanna og ekki síður við hagsmunaaðila, stóra sem smáa, útgerðarmenn, sprotafyrirtækin sem tengjast sjávarútveginum og fleiri sem hafa notið jákvæðra afleiðinga af núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og því fyrirkomulagi sem við byggjum á.

Það er síður en svo einsdæmi að það sé umdeilt að leggja á veiðigjald. Það er engin nýlunda. Veiðigjaldið var lagt á undir forustu okkar sjálfstæðismanna á sínum tíma eftir umfangsmikla vinnu auðlindanefndarinnar svokölluðu og niðurstöðu hennar. Og það voru aldeilis ekki allir sammála því, hvorki innan míns flokks né annarra flokka, að þetta væri rétta leiðin. En hún var farin af því að menn lögðu sig fram við að ná ákveðinni sátt. Menn geta síðan vissulega komið eftir á og sagt: Þetta er ekki nógu hátt, þetta verður að vera meira o.s.frv. Ræðum það þá, en setjum þetta ekki fram með því yfirlæti og því offorsi eins og ríkisstjórninni er svo tamt í hverju málinu á fætur öðru. Og er það langur listi.

Þess vegna fór ég í fyrstu ræðu minni yfir það hvernig auðlindanefndin vann, hvernig aðferðafræðin var við uppbyggingu þeirrar nefndar og hvernig menn fóru í þá vinnu sem þurfti að fara í, í kjölfar niðurstaðna nefndarinnar. Það hefur reyndar ekki allt náðst í gegn, en stóru málin hafa náðst fram. Ég er sannfærð um að ef við vöndum okkur og förum vel yfir þau sjónarmið sem hafa verið ríkjandi í samfélaginu varðandi auðlindirnar okkar og aðganginn að þeim, munum við ná sátt sem verður til þess að hægt verður að byggja áfram upp arðbæran sjávarútveg, sjávarútveg sem skapar störf, sjávarútveg sem skapar hagkvæmni og getu til þess að halda áfram að skapa ný störf með beinum og óbeinum hætti. Þá er ég að hugsa um þau fjölmörgu fyrirtæki á suðvesturhorninu, hvort sem það er í Reykjavík, Garðabæ, Kópavogi og ekki síst Hafnarfirði sem tengjast sjávarútvegi markvisst. Það eru því miklir hagsmunir undir þegar við ræðum um að fara í miklar og umdeildar breytingar á því sem tengist sjávarútveginum.

Við stóðum frammi fyrir því á sínum tíma að mikið kapphlaup var um auðlindina í hafinu. Það leiddi til þess kynnt var niðurstaða svonefndrar svartrar skýrslu. Þá þurfti stjórnmálaumhverfið að bregðast við og það var gert, ég fór yfir þetta allt saman. Síðan þetta var hefur einn ákveðinn stjórnmálaflokkur lagt sig sérstaklega fram um að gera eina stétt umfram aðrar mjög tortryggilega í þessu samfélagi og það hafa verið búin til orð í því sambandi. Oft á tíðum hefur maður haldið að það hafi ekki verið bara snjallir menn heldur snjallir áróðursmenn þar að verki sem hafa sett fram ýmis orð til þess að gera þessa stétt, útgerðarmenn, tortryggilega í augum allra Íslendinga. Í vinnuplaggi Samfylkingarinnar um sjávarútveginn er á vissan hátt verið að gera hann tortryggilegan, setja hann ekki fram eins og hann er í raun, búa til aðra mynd af honum o.s.frv. Mér finnst miður að menn hafi notað slík meðul í staðinn fyrir að reyna að draga nákvæmlega fram þá þýðingu sem sjávarútvegurinn hefur fyrir okkur Íslendinga.

Eins og ég gat um áðan hefur ekki alltaf verið samkomulag innan míns flokks um hvaða leiðir á að fara, en við studdum það að farin yrði sú leið að taka upp veiðigjald. Segja má að það sé ákveðið gjald fyrir aðganginn að auðlindinni og það gjald er hægt að þróa. Flestir gera sér fullvel grein fyrir því að það er mikilvægt fyrir okkur og nauðsynlegt að ná sátt til langframa um þessa mikilvægu atvinnugrein. Ég get svo sem hætt að hnýta í Samfylkinguna því sjávarútvegurinn hefur lengi verið bitbein í samfélaginu, að sumu leyti með réttu, að öðru eða miklu meira leyti með röngu.

Ég batt ákveðnar vonir við hina svokölluðu sáttanefnd í sjávarútvegi sem var sett á laggirnar strax í upphafi á ferli þessarar gæfulausu ríkisstjórnar (Gripið fram í.) í byrjun kjörtímabilsins. Það sem gerðist hins vegar var að niðurstaðan sem kynnt var var ekki ríkisstjórninni að skapi þrátt fyrir að víðtækt samráð hefði verið um hana. Málið var því tekið inn, eins og reyndar eitt annað stórmál sem er rammaáætlunin í orkumálum og auðlindamálum, tekið beint inn á borð ríkisstjórnarinnar og úr hinu breiða samráði. Það þurfti að finna pólitíska niðurstöðu sem hentaði stjórnarflokkunum en hún hentar ekki greininni sem slíkri og stuðlar ekki að því að við getum rekið arðbæran sjávarútveg til lengri tíma litið.

Ég verð að draga það fram að ríkisstjórnin höndlar málefni sjávarútvegsins eins og við séum og verðum eitthvert eyland sem er ekki í neinni samkeppni við aðrar þjóðir. Ef við skoðum það sem er að gerast annars staðar í heiminum þá má sjá að aðrar sjávarútvegsþjóðir, og það stórar sjávarútvegsþjóðir, hafa í auknum mæli tekið upp sjávarútvegskerfi eða fiskveiðistjórnarkerfi sem er í takti við það sem við Íslendingar höfum verið að byggja upp. Við þekkjum náttúrlega raunasögu Evrópusambandsins í fiskveiðistjórnarmálum. Það lítur mjög hingað til lands og ég held að miklu skipti að það geri það þannig að þetta verði ekki allt á hvínandi kúpunni hjá þeim. En það eru aðrar stórar þjóðir en eingöngu þær sem eru innan ESB sem hafa verið að taka upp okkar kerfi. Mér skilst að á árinu 2010 hafi 20 mjög stórar fiskveiðiþjóðir tekið upp aflamarkskerfi og núna hafi 25–30% alls heimsaflans verið sett undir slíkt stjórnkerfi fiskveiða.

Hvað þýðir það? Það þýðir að aðrar þjóðir eru að koma sér upp samkeppnishæfum sjávarútvegi. Það þýðir að samkeppnin harðnar og það forskot sem við Íslendingar höfum haft á sviði sjávarútvegs minnkar. Við höfum haft verulegt forskot í gegnum tíðina, ekki bara á grunni þess sem við erum að fá sem verðmæti upp úr sjó — við erum að fá meira fyrir hvert þorskkíló í dag en við fengum fyrir tíu árum, 20 árum eða 30 — heldur höfum við ekki síður haft gríðarlegt forskot á því sviði sjávarútvegs sem snertir þekkingu, það má tala þar um þekkingariðnað sjávarútvegsins. Þar höfum við haft okkar forskot. Það forskot varir hins vegar ekki að eilífu nema við höldum vöku okkar. Vaka okkar verður að beinast að því að viðhalda fiskveiðistjórnarkerfi sem er skynsamlegt, sem stuðlar að því sem við köllum eftir, að skapa auð fyrir alla Íslendinga í formi beinna og óbeinna starfa, beinna og óbeinna skatttekna o.s.frv.

Ef við skoðum hina erlendu samkeppni sem er vaxandi og samkeppnin á mörkuðunum verður æ meiri og harðari, er ljóst að til viðbótar því að aðrar þjóðir hafa komið á svipuðu fiskveiðistjórnarkerfi og við, hafa þær auk þess beina og óbeina ríkisstyrki til að styrkja þessa grein sérstaklega. Samkeppnisstaða þessara þjóða er því að batna mjög hratt. Síðan má minna á til að mynda þær framfarir sem hafa verið í fiskeldi og ekki síst aukningu á framboði á eldisfiski. Við getum því ekki hagað okkur þannig í þessum málum eins og að það þurfi eingöngu að fylla upp í göt á einhverjum stjórnarsáttmála og hugsa ekkert um afleiðingarnar. Við erum í samkeppni og þess vegna þurfum við að standa okkur. Við höfum staðið okkur betur og betur í sjávarútvegi og þess vegna er sárt og þyngra en tárum tekur að fylgjast með því hvernig þessi vinstri ríkisstjórn er að kollvarpa því sem við höfum byggt upp á mjög löngum tíma. Það tekur ekkert mjög langan tíma að rífa þetta niður en það tekur langan tíma að byggja upp markaði og styrkja samkeppnisstöðuna eins og við höfum gert á umliðnum árum.

Það má kannski segja að þetta verði einmitt helsti minnisvarði ríkisstjórnarinnar ef hún ætlar að fara að knýja þetta fram. Eftir alla umræðuna sem við höfum átt um stjórnlagaþing, um rammaáætlun, um stjórnarskrána og prinsippin tengd henni mun það fylgja ríkisstjórninni að hafa annars vegar ekki leyst skuldavanda heimilanna og hins vegar, þegar við lítum til baka eftir einhver ár, að það hafi einmitt verið vinstri stjórnin sem knúði fram kerfisbreytinguna sem stuðlaði að því að samkeppnisstaða Íslendinga á sviði sjávarútvegs versnaði snarlega. Og það er vegna þeirra gölnu hugmynda sem felast í þeim frumvörpum sem nú eru til meðferðar í þinginu.

Við verðum að læra það af sögunni að ef við búum atvinnugreinum okkar lakari samkeppnisskilyrði í formi sífelldrar aukningar á álögum, sköttum, gjöldum o.s.frv., fyrir utan allan eftirlitsiðnaðinn, allt regluverkið sem herðir að öllum okkar atvinnugreinum, munu lífskjör Íslendinga versna. Það er samhengi þar á milli. Þess vegna verðum við að stíga varlega til jarðar. Þess vegna köllum við sjálfstæðismenn og fleiri í stjórnarandstöðunni eftir því að menn andi rólega, og ég vil helst sjá formenn stjórnmálaflokkanna setjast niður og fara yfir þessi mál í samvinnu við þá sem þeim tengjast. Ég vil að menn fari yfir þetta og gefi sér tíma til þess í sumar svo að hægt verði að ræða þetta mál af skynsemi á næsta þingi af því að það er svo risastórt, það er svo stórt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að á þessum málum verði vel haldið.

Svo ég komi að allt öðru þá vil ég líka draga fram, af því að hér er þingmaður sem hefur komið að gerð kjarasamninga og hefur m.a. tengst ASÍ í gegnum tíðina, sem er hv. þm. Magnús M. Norðdahl, að í áliti frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins í umsögn hennar um frumvarp til laga um veiðigjöld segir m.a. á bls. 67, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að nokkur næstu ár geti tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum orðið um og yfir 20 milljarðar kr. á ári að því gefnu að rekstrarskilyrði í sjávarútvegi verði áfram með besta móti. Það er um 9 milljarðar kr. umfram áætlaðar tekjur af veiðigjaldi í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2012–2015.“

Hvað er verið að segja okkur þarna? Hér gengur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins út frá því að gengi krónunnar muni haldast lágt eins og það er í dag, þ.e. fjármálaráðuneytið miðar ekki við forsendur stöðugleikasáttmálans og kjarasamninga sem byggjast á því að krónan styrki sig um allt að 20% á næstunni. Það er þess vegna sem ég fullyrði það að Alþýðusambandið, auk Samtaka atvinnulífsins og annarra sem koma að vinnumarkaði, hefur ákveðnar áhyggjur af veiðigjaldinu og því hvernig þetta mál hefur verið unnið. Þær forsendur stuðluðu meðal annars að því að hér var settur fram loforðapakki undir forustu varaformanns Samfylkingarinnar. Það var mjög merkilegur pakki að því leytinu til að þar sáum við inn í hugarheim Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og hvernig þeir flokkar lofa upp í ermina á sér á grundvelli forsendna sem menn gefa sér í þessu frumvarpi.

Ríkisstjórnin segir: Við lofum öllu fögru, við ætlum að efla hitt og þetta — sem er gott og blessað — en það verður gert á grunni þeirra forsendna sem við setjum í dag, ekki forsendna í nýgerðum kjarasamningum sem menn settu fram til lengri tíma. Forsenda veiðigjaldsins er því lágt gengi krónunnar. Það gengur í berhögg við forsendur kjarasamninga. Og það er merkilegt að þeir flokkar sem hafa talið sig standa vörð um hagsmuni verkalýðsins, hagsmuni þeirra sem búa við þau kjör sem samið er um í almennum kjarasamningum, skuli ekki hafa áhyggjur af þessum forsendum og umsögn fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins. Mér finnst þetta merkilegt.

Það heyrist reyndar ósköp lítið frá þingmönnum Suðvesturkjördæmis í þessari umræðu. Þeir eru reyndar iðulega á mælendaskrá en húrra sér svo alltaf niður listann eftir því sem líður á umræðuna. Ég vil draga það fram sem ég hef lagt áherslu á, að sjávarútvegurinn hefur vissulega mikla þýðingu fyrir landsbyggðina. Það er undirstrikað í þeirri auglýsingu sem við sáum í Morgunblaðinu í dag þar sem 131 sveitarstjórnarmaður skrifar undir viðvörun til Alþingis um að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál. Mér finnst því sárt að sjá að forustumenn áhugamanna um sjávarútveg og framgang grunnatvinnugreina er ekki að finna á meðal sveitarstjórna vinstri manna á höfuðborgarsvæðinu. Það hentar ekki að rugga bátnum, það hentar ekki fyrir suðvesturhornið og oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík eða heima í Hafnarfirði að rugga bátnum, ekki nú frekar en fyrri daginn, ef það skyldi leiða til þess að forustumenn Samfylkingarinnar yrðu eitthvað órólegir. Aðrir oddvitar, aðrir flokksmenn þeirra víða um land hafa hins vegar hug og kjark til þess að mótmæla þessari vitleysu og þessari gríðarlegu hækkun á veiðigjöldum.

Með því er ég að segja: Ég kalla eftir viðhorfum þingmanna suðvesturkjördæmis í þessu máli, öðrum viðhorfum en þeim að koma hingað upp og tala um hvað hitt og þetta sé skítt og hinir og þessir séu vondir og skítsama um allt og alla undir liðnum um störf þingsins. Mér finnst enginn bragur á því. Ég mundi gjarnan vilja hlusta á rök þeirra fyrir þeim frumvörpum sem þeir ætla sér að berjast fyrir.

Ég vil í lokin undirstrika það að við sjálfstæðismenn höfum ávallt sagt: Við erum tilbúin til að styðja breytingar á veiðigjaldinu, tilbúin til að ræða um hóflegt veiðigjald sem verður ekki til þess að sliga sjávarútveginn. Við viljum sjávarútveg sem stuðlar að fjölgun starfa, eflingu atvinnulífs til lengri og skemmri tíma litið. Menn eiga að geta sest niður og komist að góðri niðurstöðu þar um.