140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú algjörlega, við þurfum einmitt að koma slíkri umræðu upp úr því hjólfari. En stundum fæ ég á tilfinninguna, hafandi hlustað á það sem sagt hefur verið hér af stjórnarliðum, að það séu þeirra hagsmunir, kannski sérhagsmunir þeirra, að viðhalda nákvæmlega slíkri orðræðu í þinginu, að vera með skæting sí og æ gagnvart stjórnarandstöðunni í staðinn fyrir að lesa svona auglýsingar. Og ef við erum að gæta sérhagsmuna þessa fólks er ég einfaldlega í þeim hópi.

Ég er á þeirri línu sem hér birtist: Sérfræðingarnir benda á, eins og sagt er í auglýsingunni, að ólíklegt sé að þeim markmiðum sem stefnt er að í frumvarpinu verði náð. Þess vegna segi ég: Til að ná langtímastöðugleika fyrir sjávarútveginn gefum við okkur tíma, förum yfir það sem við höfum sagt hér því að það er þráður í þessu öllu og þráðurinn er ákveðinn sameiginlegur tónn sem við eigum að geta unnið út frá.