140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Stundum er eins og hægri hönd ríkisstjórnarinnar viti ekki hvað sú vinstri gjörir, t.d. hafa skattarnir verið hækkaðir svo gríðarlega eftir að ríkisstjórnin tók við að tekjustofnar ríkisins eru farnir að dragast saman. Alvarlegustu tölur og hæstu tölur sem ég hef séð í samdrætti eru þær sem birtast eftir að þessi ríkisstjórn tók við. Virðisaukaskattskerfinu hefur verið breytt þannig að það er hrunið og kemur út í mínus. Eins er hægt að taka bensínskattana sem dæmi, sem leiddu til samdráttar í akstri, og annað. Ég veit ekki á hvaða leið ríkisstjórnin er.

Mér finnst líka vanta að ríkisstjórnin viti hver munurinn er á gjöldum og sköttum því að það er stór munur á. Umboðsmaður Alþingis hefur oft þurft að úrskurða um að skatttekjur séu í raun gjaldtaka (Forseti hringir.) og öfugt því að það má ekki ráðstafa þessum gjöldum að vild.