140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:17]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir þær áhyggjur sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lýsti hér og að ekki sé ásættanlegt fyrir samfélagið okkar að halda gengi gjaldmiðilsins í núverandi stöðu sem hefur verið um langt árabil. Það er sameiginlegt markmið aðila vinnumarkaðarins að vinna gegn því. Það er hluti af þeirri sátt sem náðist á milli þeirra og er ein af forsendum kjarasamninga. Þess vegna er þetta verulegt áhyggjuefni.

Ég mun fara betur yfir það í ræðu minni hér á eftir hvaða umsögn Alþýðusamband Íslands hefur gefið um þetta mál og hverjar það telur að langtímatekjur verði af þessum veiðigjöldum.

Ég get ekki svarað þessu með öðrum hætti en þessum: Það er óásættanlegt að ein af forsendum þess að gjaldið verði innheimt sé sú að gengi krónunnar verði haldið lágu, ef það fer í þessa 20 milljarða.

Mér þykir ekki síður forvitnilegt, og ég veit að hv. þingmaður deilir því með mér, að vita hvernig þetta gjald liti út og hvernig atvinnulífið í landinu liti út, svo að ég tali nú ekki um fjölskyldurnar, ef við byggjum við stöðugt gengi. Hvernig liti samfélagið okkar þá út? Ég man þá tíð að hér liðu varla þeir mánuðir að ekki væri verið að fella og veikja gengi krónunnar til að styrkja útflutningsatvinnuvegina, sem hefur alla tíð þýtt fyrir launafólk að sá kaupmáttur sem ávinnst í kjarasamningum, oft og tíðum hóflegum og skynsamlegum kjarasamningum, er rifinn af launafólki jafnharðan og þarf að þjóna hagsmunum útflutningsgreinanna. Það er óásættanlegt.

Ég held því að þetta sé og ætti að vera okkur hvati til að taka hér upp gjaldmiðil sem væri stöðugur og á vetur setjandi til framtíðar.