140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:08]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili því með hv. þm. Birgi Ármannssyni að vera ekkert sérstaklega róttækur þannig að ég veit ekki hversu róttækur ég vildi vera í miklum breytingum á því. En ég tel að verið sé að gera margt gott í þessu efni.

Hvað með þetta gjald, er það of hátt eða ekki? Ég verð að játa að ég hef kannski ekki alveg nægilega þekkingu til þess að geta sagt það einlæglega hvað er of mikið og hvað er of lítið. Það er búið að draga verulega úr því, margar af þeim umsögnum sem gefnar voru byggðu á frumvarpinu eins og það lá frammi í upphafi. Gjaldið hefur annars vegar lækkið, tekið hefur verið tillit til skuldsetningar þeirra útgerða sem er ósköp einföld staðreynd, menn keyptu þennan kvóta og það verður að taka tillit til þess. Reynt hefur verið að aka frumvarpinu til á milli umræðna til þess að koma því í það stand að það verði ásættanlegt. Kannski verðum við aldrei sammála um það hvað verður nákvæmlega ásættanlegt í þessu efni en ég held að við séum að nálgast það.

Auðvitað eru allar umsagnirnar góðra gjalda verðar en ég þekki það sem hæstaréttarlögmaður eftir 15 ára starf að þegar maður skrifar texta fyrir sinn kúnna þá er maður fótgönguliði þeirra sem borga reikninginn.