140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:18]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni skrikaði nú fótur í ræðu sinni. Þetta eru engin slagorð jafnaðarmanna, það vita allir eða eiga að vita það að þessi hugtök liggja til grundvallar stjórnarskrá Bandaríkjanna og rót þeirra er ekki síður hjá Benjamin Franklin og George Washington en Lafayette þeim franska enda voru þetta allt saman ágætir og góðir vinir. Grundvöllur stjórnarskrár Bandaríkjanna og þeirrar frönsku byggir á þessum hugsjónum eða þessari hugmyndafræði og þetta eru langt frá því að vera slagorð, þessi orð hafa djúpa og mikla merkingu fyrir mjög marga.

Síðan skrikaði hv. þingmanni aftur fótur — ég ætla ekki að segja að það hafi verið útúrsnúningur en ákveðinn misskilningur. Það er munur á einkaréttindum og einkaeignarrétti. Ég fór yfir þann mun áðan. En þingmaðurinn ruglar þessum tveimur hugtökum saman í andsvari sínu og býr úr því til spurningu sem ég get því miður get ekki svarað því að hugtökin eru ekki samstæð.