140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er mjög ógeðfellt að byrja á því að ráðstafa skatttekjunum áður en búið er að afla þeirra og meira að segja áður en búið er að samþykkja lögin í þinginu. Þetta minnir mig á umræðurnar um IPA-styrkina fyrir nokkrum dögum. Þar var fyrst látið sækja um styrkina áður en búið var að samþykkja þá. Það er eins og verið sé að selja hugmyndina um hversu gott þetta sé. Það á til dæmis að ráðstafa skatttekjunum af auðlindagjaldinu í vegagerð og sagt að af vegagerð geti ekki orðið nema auðlindagjaldið fáist fram. Manni finnst svipuð fingraförin á þessum tveimur málum.

Hv. þingmaður fór í ræðu sinni yfir það svar sem hún fékk frá fjármálaráðuneytinu fyrir tveimur dögum síðan þar sem fram kom það hrap sem hefur orðið á virðisaukaskattstekjum ríkissjóðs. Maður hefur það oft á tilfinningunni að vinstri menn skilji ekki hvað skattstofn er. Þeir halda að ef þeir hækki bara prósentuna komi meira í kassann og það hafi engin áhrif á skattstofninn sem slíkan. Þeir voru nú svo gáfulegir þegar þeir reiknuðu þetta út að þeir ætluðu sér að taka 20 milljarða en niðurstaðan varð sú að reiknireglan tók 50 milljarða. Það er búið að leiðrétta þá vitleysu eftir að hún kom í ljós en þeir voru hins vegar mjög tregir að viðurkenna hana.

Hv. þingmaður nefndi hæstv. þáverandi fjármálaráðherra en fjárlagafrumvarpinu sem hann mælti fyrir í október 2011 fylgdi skýrsla um áætlun um ríkisfjármálin 2012–2015. Þar var gert ráð fyrir því að ná í 9,3 milljarða í tekjur af veiðigjaldi árin 2013, 2014 og 2015, en samkvæmt frumvarpinu núna á að taka 15 milljarða. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Gæti skýringin á þessu pati hjá vinstri stjórninni hugsanlega verið sú að af því að virðisaukaskattsstofninn sé hruninn verði bara að ráðast á næsta stofn til þess að ná í tekjurnar? Þetta er nú ekki gamalt plagg og ekki langt síðan það kom út og þar koma áætlanir í ríkisfjármálum skýrt fram. Getur hv. þingmaður tekið undir þá skoðun mína að þetta sé þannig?