140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon gerði þrjár atrennur að virðisaukaskattskerfinu, fyrst með því að ætla að hækka matarskattinn upp í 24,5%, hann var rekinn með það til baka, þá átti að fara með matarskattinn upp í 14% en hann var rekinn með það til baka. Hæstv. fjármálaráðherra kom því loksins í gegnum þingið að hækka hærra virðissaukaskattsþrepið í 25,5% og það átti að skila 6 milljörðum aukalega til ríkisins.

Árið 2009 voru virðisaukaskattstekjur ríkisins af innlendri framleiðslu og þjónustu 32 milljarðar. Árið 2010 voru tekjurnar komnar niður í 18 milljarða og 2011 eru tekjurnar komnar í mínus 9 milljarða, sem á ekki að vera hægt í kerfi sem á að vera virðisaukandi. Þessir 6 milljarðar létu að sjálfsögðu standa á sér vegna þess að nú er virðisaukaskattskerfið komið í mínus.

Þær voru mjög fróðlegar tölurnar sem hv. þingmaður las hér upp varðandi tekjuöflun ríkisins af veiðileyfagjaldinu svokallaða, sem er ekkert annað en styrkur. Þingmaðurinn sagði að þessi skýrsla um ríkisfjármálin hefði komið út í nóvember 2011 frá þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Þetta mál kom inn í þingið í mars og þá er búið að hækka gjaldið upp í 18 milljarða, ég minni þingmanninn á það, en nú er búið að lækka það niður í 15 milljarða samkvæmt breytingartillögu. Auðvitað skapast panik í fjármálaráðuneytinu og náttúrlega hjá ríkisskattstjóra þegar heill tekjustofn ríkis fer nánast í gjaldþrot. Það má segja að tæknilega sé innlenda virðisaukaskattskerfið gjaldþrota. Og þá þarf náttúrlega að herja á og setja meiri skatta og meiri gjöld til þess að stoppa upp í enn eitt gatið sem er afleiðing þessarar vonlausu skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég tek því undir með þingmanninum.