140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sérstaklega fannst mér fróðlegt að hlusta á yfirferð hv. þingmanns um þær athugasemdir, ábendingar og gagnrýni sem hefur komið fram hjá sveitarfélögunum í landinu. Það er alveg rétt að sveitarfélögin hafa hvert um annað þvert gert mjög alvarlegar athugasemdir og það sem meira er, hafa lagt í heilmikinn kostnað við að greina þessi mál. Af hverju skyldi það vera? Jú, vegna þess að hér er gríðarlega mikið í húfi.

Þess vegna hef ég verið mjög undrandi á því að hlusta á umræðurnar hjá þeim sárafáu stjórnarliðum sem hafa treyst sér til að fara í þessa umræðu þegar þeir hafa haldið því fram að allir þeir sem hafa eitthvað við þessi frumvörp að athuga séu gæslumenn sérhagsmuna. Það er ekki nóg með að við þingmenn sem höfum gagnrýnt þessi frumvörp séum gæslumenn sérhagsmuna, ekki bara að hagsmunasamtökin í landinu séu gæslumenn sérhagsmuna, heldur að sjómannahreyfingin eins og hún leggur sig sé líka komin í þá stöðu, og sveitarfélögin auðvitað þar með.

Hv. þingmaður las hér upp álit sveitarfélaga, m.a. á Norðausturlandi, sem hafa sett fram sín sjónarmið og þá vaknar þessi spurning: Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að það kunni að vera að einhverjir sérhagsmunir eða annarleg sjónarmið reki sveitarfélögin áfram? Getur hv. þingmaður til dæmis tekið undir það sem hefur verið sagt úr þessum ræðustóli af hv. þingmönnum stjórnarliðsins að allir þeir sem gagnrýni þessi frumvörp og tilheyri ekki Landssambandi íslenskra útvegsmanna gangi erinda þess sambands og séu einhvers konar taglhnýtingar eða undirlægjur Landssambands íslenskra útvegsmanna, eins og menn hafa í rauninni verið að segja? Telur hv. þingmaður að sveitarfélögin í Norður-Þingeyjarsýslu hafi teflt þessu fram á móti vilja sínum, á móti skoðun sinni og þetta sé bara gert til þess að þjóna undir (Forseti hringir.) hagsmuni útvegsmanna og sérstaklega Landssambands íslenskra útvegsmanna?