140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hvarflar ekki að mér eitt sekúndubrot að þeir sveitarstjórnarfulltrúar sem skrifa undir þetta álit séu að gæta sérhagsmuna. Þeir eru hins vegar að gæta að skjólstæðingum sínum, þeim íbúum sem búa í sveitarfélögum og það er þeirra að tryggja að þar sé næg atvinna. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er Ísland einfaldlega þannig að við þurfum á auðlindum okkar að halda. Nýtingin á þeim verður að vera þannig að þær skapi arð til þess að við getum búið til öflugt mennta- og velferðarkerfi. Það er ekki endalaust hægt að ráðast á helstu tekjulind okkar, minnka hagræðið, koma fyrirtækjunum á kné og ætla um leið að stórbæta þjónustuna í velferðarkerfinu. Þetta bítur allt í skottið hvað á öðru. Á þessu eru fulltrúar, jafnvel fulltrúar í Samfylkingunni, sem eiga sæti í sveitarstjórnum, að átta sig á víðs vegar um landið. Reyndar er Samfylkingin komin vel undir 10% í okkar kjördæmi, sem er kannski eðlilegt í ljósi þess hvernig þeir hafa staðið sig eða hvaða skref þeir hafa stigið, blessaðir, þetta eru ágætismenn að sjálfsögðu.

Ég vildi ítreka þetta og ágætt að það komi fram. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það má kalla okkur þingmenn öllum illum nöfnum en að segja að allir þeir sem hafa sent inn allar þessar umsagnir séu að gæta sérhagsmuna gengur ekki. Og þetta eru bara umsagnir frá sveitarfélögum í Norðausturkjördæmi, allar neikvæðar og með miklum (Forseti hringir.) varnaðarorðum, virðulegi forseti.