140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fyrir hrun varð þróun sem var mjög óæskileg að mínu mati. Fjöldi fólks flykktist til Reykjavíkur vegna þess að þar var þensla í byggingariðnaði, bankageirinn stækkaði, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að flestir séu sammála um að sú þróun hafi ekki verið góð fyrir landið allt.

Eftir hrun gafst einstakt tækifæri til þess að snúa þróuninni við, ekki með afli heldur einfaldlega með því að gefa sveitarfélögum landsins tækifæri til að starfa eðlilega og láta þau njóta sömu gæða og aðilar á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er ótrúlegt að hér eigi að leggja á landsbyggðarskatt, virðulegi forseti. Landsbyggðarskatt sem bitnar fyrst og fremst á byggðunum í landinu, á sveitarstjórnum sem eru staðsettar hringinn í kringum landið, í byggðarlögum sem eiga mörg óþrjótandi tækifæri ef sú ríkisstjórn sem nú er við völd mundi einfaldlega hleypa þeim af stokkunum.