140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í ummæli hans í ræðunni um framsetningu ríkisstjórnarinnar á því hvernig hægt væri að taka þennan skatt, aukaskatt á landsbyggðina, og nota í uppbyggingu vegamannvirkja. Mér finnst þessi framsetning ótrúleg, svo að ég taki sterkt til orða, og það að ætla að ráðstafa skatttekjum fram í tímann er náttúrlega nokkuð sem við í fjárlaganefnd viljum alls ekki sjá. Við verðum að vita rammana fyrir fram og við höfum tekið umræðu um það, ég og hv. þingmaður og félagar okkar í fjárlaganefnd.

Mig langar því að beina þessum orðum til hans: Telur hv. þingmaður að þetta séu vinnubrögð sem við getum byggt á til framtíðar? Eru það ekki vinnubrögð sem við verðum að sjá fyrir endann á á Alþingi að menn ætli sér að taka skatta fram í tímann sem er algjörlega óvíst hverjir verða og lofa um leið útgjöldum í einhver verkefni — sem eru auðvitað mörg hver góð — með það eina markmið að vinna tillögum sínum fylgi, tillögum sínum sem bitna fyrst og fremst á landsbyggðinni?

Þá vil ég líka koma inn á þær umsagnir sem hafa borist frá Vestfjörðum. Það sem vakti athygli mína var að frá Patreksfirði og Vesturbyggð og fleiri stöðum komu mjög neikvæðar umsagnir þar sem er varað við þessu. Þetta er kjördæmi hv. þingmanns þannig að það væri ágætt ef hann færi aðeins yfir málið því að ég býst við að fólk sem skilur ekki sjávarútveginn hafi haldið að Vestfirðingar væru allir á móti kvótakerfinu (Forseti hringir.) og þessar tillögur væru gerðar til að styrkja byggð þar.