140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að því sem hv. þingmaður spurði um í restina, um umsögnina frá bæjarstjórninni í Vesturbyggð og forsvarsmönnum sveitarfélagsins þar. Það kemur mjög skýrt að forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa gríðarlegar áhyggjur af þessari gjaldtöku. Þeir benda réttilega á að þetta geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið þar.

Við vitum að sunnanverðir Vestfirðir hafa verið að glíma við mikla fólksfækkun á undanförnum áratugum. Núna horfir sem betur fer til bjartari tíma. Töluvert fjölgaði í Vesturbyggð í fyrra vegna þess að nú eru að koma þangað stöndug fyrirtæki og uppbygging, til að mynda í laxeldi og Kalkþörungaverksmiðjunni og svo mætti lengi telja.

Þá má ekki gleyma því að fyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum búa við mjög skerta samkeppnisaðstöðu gagnvart öðrum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Það er fyrst og fremst út af samgöngum. Menn verða að fara yfir fjörðinn með ferjunni og þegar þeir fá fiskinn sinn til vinnslu er fyrirtæki sem er til dæmis á Suðureyri, sem er náttúrlega norðar en Patreksfjörður og Bíldudalur, búið að vinna fiskinn sinn og flytja hann út til Evrópu þegar fyrirtækið á sunnanverðum Vestfjörðum er að fá sinn fisk. Þeir búa því við skerta samkeppnisaðstöðu. Það gefur augaleið að þetta eru kaldar kveðjur til þessara byggðarlaga.

Hv. þingmaður spurði líka um ráðstöfun tekna fram í tímann. Auðvitað er það ósmekklegt, það er mjög ósmekklegt að segja: Við ætlum að taka þennan skatt og láta í þetta verkefni. Hvað er næst? Munu menn ekki segja: Við ætlum að taka auðlegðarskattinn og setja í barnabætur — til að reyna að selja einhverja hugmynd? Við höfum farið í gegnum umræðuna um IPA-styrkina þar sem byrjað var að ráðstafa styrkjunum og reynt að senda þá út í samfélögin áður en búið var að samþykkja á Alþingi það sem þurfti að gera fyrst, frumvarpið og þingsályktunartillöguna. Þetta eru algjörlega (Forseti hringir.) óboðleg vinnubrögð.